Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:37:52 (4867)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er verið að greiða atkvæði um gerir ráð fyrir því í fyrsta lagi að skerða tíma í grunnskólum frá því sem gert er ráð fyrir í grunnskólalögum. Í öðru lagi að fella niður ákvæðið um lágmarkstíma til barna sem stunda nám í grunnskólum og í þriðja lagi að heimila að fjölgað verði í bekkjum í grunnskólum með tilteknum hætti eins og greint er frá í frv. Við sem skipum minni hluta hv. menntmn. erum andvíg þessu og teljum skynsamlegra að hafna frv. eins og það liggur fyrir, enda er hér ekki verið að spara mjög verulega fjármuni fyrir ríkissjóð. Við teljum að verið sé að stofna menntastefnu í landinu almennt í hættu og ef menn samþykkja þetta frv. núna í annað sinn sé hætt við því að við séum að stíga inn í tímabil varanlegrar skerðingar á þjónustu við börn í landinu. Þess vegna munum við greiða atkvæði gegn þessari grein og öðrum greinum frv.