Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:44:04 (4871)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að hefja hér utandagskrárumræðu um málefni Ríkisspítalanna að hæstv. heilbrrh. fjarstöddum, en því miður hefur forsjónin svo fyrir séð að það er ekki um annað að ræða þar sem brýnt málefni er á ferðinni og þing er að ljúka störfum í kvöld og kemur ekki saman aftur fyrr en í febrúar.
    Ég vil þakka hæstv. forsrh., sem einnig er starfandi fjmrh., fyrir að taka vel í beiðni mína að svara fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar þessari spurningu: Hvernig hyggst hæstv. ríkisstjórn bregðast við uppsögnum ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölunum sem koma mun til framkvæmda 1. febr.?
    Eins og kunnugt er blasir sú staðreynd við að 417 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sögðu upp störfum sínum 1. nóv. að undangengnum viðræðum sem báru ekki árangur. Það er langur aðdragandi að þessum uppsögnum og menn hafa vonað í lengstu lög að viðræður við ríkisvaldið bæru þann árangur að ekki þyrfti að koma til aðgerða.
    Þegar talað er um Ríkisspítalana er verið að ræða um einn stærsta vinnustað landsins. Þar vinna í kringum 3 þús. manns. Þessar uppsagnir koma með m.a. á Landspítala, Kleppsspítala, Vífilsstaðaspítala og Kópavogshæli. Ef til kæmi að starfsemi Landspítalans lamaðist, þá þýddi það að eina fæðingardeildin á Reykjavíkursvæðinu mundi lokast, eina vökudeildin á landinu, eina hjartaaðgerðardeildin á landinu, eina deildin sem starfrækir gervinýra, svo að eitthvað sé nefnt. Það þarf því ekki að fjölyrða lengi um það að mikil alvara er á ferðum og mikil ábyrgð sem hvílir á hæstv. ríkisstjórn að leysa þessa deilu.
    Ástæða uppsagnanna er eins og alþjóð veit óánægja með launakjör. Óánægja sem fyrst og fremst er af tvennum toga. Annars vegar að samanburður við launakjör annarra heilbrigðisstétta innan sömu stofnunar sem hafa sambærilega skólagöngu að baki. Hins vegar samanburður við launakjör hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á öðrum heilbrigðisstofnunum innan sem utan Reykjavíkursvæðisins.
    Rétt er að það komi fram að hjúkrunarfræðingar hafa í dag að baki sér fjögurra ára háskólanám. Byrjunarlaun eru rúmar 68 þús. kr. Ljósmæður hafa í dag minnst fjögurra ára háskólanám auk tveggja ára sérnáms. Byrjunarlaun ljósmæðra eru rúmar 70 þús. kr. Meðallaun taxtalaunaðra háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga í júní 1991 voru langlægst meðal háskólamenntaðra. Meðan taxtalaun háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga eru tæplega 80 þús. kr. er meðaltaxti BHMR-félaga á sama tíma um 95 þús. kr. Ef tekinn er meðaltaxti taxtalauna heilbrigðisstétta með svipaða námslengd að baki, þá eru sjúkraþjálfarar með rúmar 92 þús., iðjuþjálfarar með 94 þús. og matvælafræðingar með 94 þús. Ekki eru þessir aðilar ofsaddir af sínum launum, en það er eðlilegt að starfsstéttir með svipaða lengd háskólanáms sem vinna hlið við hlið beri sig saman.
    Einhver kann að spyrja: Erum við ekki komin of langt með okkar menntunarkröfur? Er þetta ekki of dýrt? Við Íslendingar erum stoltir af því að geta sagt að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé góð og þróunin ótrúlega hröð. Með hverjum deginum sem líður getum við tekið á móti flóknari og sérhæfðari verkefnum sem okkur dreymdi ekki einu sinni um fyrir nokkrum árum að gera en eru talin til tiltölulega einfaldra hluta í dag. Þessi þróun hefur átt sér stað vegna aukinnar menntunar, aukinnar sérhæfingar á öllum sviðum. Ég spyr: Vill einhver snúa til baka?
    Þessi þróun hefur líka sparað okkur þúsundir milljóna í betra heilsufari, meiri vellíðan og færri utanlandsferðum til lækninga. Það verður að taka með í reikninginn.
    Landspítalinn greiðir hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum lægstu launin þó viðurkennt sé að þar leggist inn sjúklingar með erfiðustu og flóknustu sjúkdómana. Álagið er stöðugt og þar er að sjálfsögðu engum hægt að vísa frá. Sú staðreynd að launakjör hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Landspítalanum eru lökust á landinu er óásættanleg.
    Á þessu skamma tíma sem ég hef hér til umráða er ekki hægt að fara inn á aðra þætti, enda mun ég geyma mér það til seinni tíma þegar hæstv. heilbrrh. er við.
    Virðulegi forseti. Nú í dag þegar aðeins er hálfur mánuður þangað til að starfslokum er komið hjá þeim stéttum sem ég hef rætt um er hæstv. forsrh. og starfandi fjmrh. spurður: Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við? Það kann að vera að ég fái það svar að ríkið muni framlengja uppsagnarfrest þeirra um þrjá mánuði en þá er því til að svara að í lögfræðiáliti, sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa fengið varðandi túlkun á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna, er það túlkað þannig að starfsstéttir séu í fullum rétti til að hætta störfum þegar uppsagnarfrestur rennur út. Það ætla þessar starfsstéttir að gera og það má ekki gerast.