Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:57:22 (4874)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni er komin upp deila milli hóps ríkisstarfsmanna og ríkisstjórnar. Enn einu sinni er það hluti kvennastéttar, að þessu sinni 417 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður á Landspítalanum, sem er nóg boðið og hafa sagt upp störfum og hyggjast ganga út um næstu mánaðamót. Hér er alvarlegt mál á ferð sem snertir annars vegar viðkvæma þjónustu, sem brýnt er að halda uppi, og hins vegar kjör mjög mikilvægra stétta sem ekki geta lengur sætt sig við þau kjör sem Ríkisspítalarnir bjóða upp á.
    Ég get ekki annað en vakið athygli á því að enn einu sinni virðist stefna í að ekki sé reynt að leysa launadeilur hjá ríkinu fyrr en allt er komið í eindaga. Það er ekki talað við fólk fyrr en allt er komið í óefni. Það er augljóst að löngu er tímabært að stokka upp launakerfi ríkisins, ekki síst með tilliti til kvenna og hinna mikilvægu umönnunarstarfa sem þær sinna hjá hinu opinbera. Það launamisrétti og vanmat sem nánast allar kvennastéttir búa við verður ekki þolað til lengdar.
    Ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér til lausnar þessari deilu. Enn er tími til stefnu og það verður að koma í veg fyrir að neyðarástand skapist á Ríkisspítölunum enn einu sinni. Það getur ekki talist annað en réttlátt að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái leiðréttingu sinna mála og að störf þeirra verði metin að verðleikum. Ríkisvaldið ber mikla ábyrgð á ríkjandi launastefnu. Það verður að axla sinn hluta ábyrgðarinnar þegar upp úr sýður og taka upp ábyrg vinnubrögð í stað hótana eða þagnar sem allt of lengi hafa einkennt vinnubrögð ríkisins þegar starfsmenn þess fara fram á réttarbætur.
    Ég ítreka þá spurningu sem hér var borin fram í upphafi: Hvernig ætlar hæstv. forsrh. að beita sér til lausnar þessari deilu?