Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:59:23 (4875)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hæstv. forsrh., sem rétt er, að hér er ekki um hefðbundna kjaradeilu að ræða. Hér er ekki einn hópur að taka sig út úr sérstaklega og leggja fram harðorðar kröfur um hækkuð laun og stórbætt kjör. A.m.k. ekki í þá veru að slík breyting, ef gengið yrði að kröfum þessa hóps, hefði í för með sér stórkostlega röskun á því hefðbundna fyrirkomulagi sem hér hefur verið byggt upp, þ.e. það raski öllum launastrúktúr í landinu. Hér er fyrst og fremst um óánægju ákveðins hóps á einni stofnun að ræða. Sá hópur, sem eru hjúkrunarfræðingar og ljósmæður í þessu tilfelli, horfir upp á að það er mismunað eftir því við hvaða stofnanir þessi starfsstétt starfar. Það er furðulegt að sami launagreiðandinn, þ.e. ríkið, skuli geta gengið fram með þeim hætti að mismuna sömu starfsstéttinni eftir því á hvaða stað hún vinnur. Það er staðreyndin. Það liggur fyrir, eftir því sem ég veit best, úttekt samstarfsráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík, á því að það er gríðarlegur munur á kjörum hjúkrunarfræðinga eftir því á hvaða sjúkrahúsum í Reykjavík þeir starfa. Best eru kjörin, eftir því sem ég veit best, á Landakotsspítala, síðan á Borgarspítalanum og verst á Ríkisspítölunum. En þegar að er gáð greiðir sami launagreiðandinn þessum hópum úr sama sjóði.
    Því spyr ég hæstv. forsrh.: Er það hægt að koma þannig fram af hálfu ríkisins að mismuna sömu stéttinni eftir því hvar hún vinnur?
    Það kom fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur að þau störf sem hjúkrunarfræðingarnir vinna á þessum stofnunum eru mjög mikilvæg. En skyldu launakjörin vera í samræmi við þá miklu ábyrgð sem þessi stétt sinnir á sjúkrahúsunum? Ég held það geti varla verið að nokkur geti komist að þeirri niðurstöðu að eftir fjögurra ára háskólanám sé greitt í byrjunarlaun 68.714 kr. til hjúkrunarstéttarinnar sem heldur spítölunum í landinu gangandi. Því það eru ekki sérfræðingarnir sem eru að sögn hæstv. heilbrrh. aðallega vinnandi úti í bæ og þar eyðandi peningum ríkisins.