Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 18:07:57 (4878)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek þátt í umræðunni í dag fyrst og fremst til að lýsa stuðningi mínum við sanngjarnar kröfur hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra hjá Ríkisspítölunum. Þau búa við mun lakari kjör en stéttir með hliðstæða menntun innan sömu sjúkrastofnana, til að mynda sjúkraþjálfarar. Ég bendi á að sparnaði og hagræðingu hefur þegar verið náð á Ríkisspítölunum og þar er e.t.v. ekki í digra sjóði að leita. Ég held að það sé óhætt að segja að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa verið seinþreytt til vandræða en nú er mælirinn fullur.
    Konur --- flestir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður eru konur --- mega sæta því að vera greidd mun lægri laun en körlum fyrir fulla vinnu eða u.þ.b. 70% af launum karla. Sú var tíðin að konur trúðu því að þetta mundi lagast með aukinni menntun en ég held að mat á störfum hinna fjölmennu stétta hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sýni að það er enn langt í land þótt misjafnt sé það á milli sjúkrastofnana og heilbrigðisstétta.

    Nú er menntun til þessara starfa margra ára háskólanám en matið lætur á sér standa. Ofan á þetta bætist mikið og sívaxandi álag á mörgum deildum, t.d. við Landspítalann, ekki síst fæðingardeild, þar sem fæðingum fjölgaði um næstum því 400 á sl. ári, úr 2.558 í 2.913. Það er 14% aukning milli ára. En þetta gerist án þess að bætt sé við stöðugildum. Það blasir við að eftir lokun Fæðingarheimilisins, sem við kvennalistakonur höfum æ ofan í æ gagnrýnt, kemur þetta álag niður á fæðingardeildinni. Á síðasta heila ári sem Fæðingarheimilið starfaði voru 464 fæðingar þar. Þetta er viðbótarálag. Þessi aðstaða er óviðunandi. 417 ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp. Uppsagnirnar taka gildi 1. febr. og þar sem þessar stéttir eru ekki skipaðar í þær stöður munu þær hætta störfum samkvæmt því sem lög leyfa.