Grunnskóli

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 18:58:11 (4887)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh. að þetta hefur svo sem allt verið sagt áður sem verið er að segja hér nú. Það er einu sinni svo að ef menn ekki skilja það sem verið er að tala um þá verður að segja það alloft og reyna til þrautar að koma mönnum í skilning um hvað verið er að gera.
    Frú forseti, ég skal reyna að þreyta þingmenn ekki með mjög langri ræðu, ég hélt alllanga ræðu í þessu máli á síðasta þingi og sé ekki ástæðu til að endurtaka það allt. Ég vil í upphafi máls míns benda á að ekki fer hjá því að maður undrist eilíflega þegar stjórnarskipti verða. Það er eins og menn geti aldrei nýtt sér það sem búið er að gera. Hæstv. núv. menntmrh. kann að hafa ýmsar skoðanir á lífsviðhorfum og pólitískum viðhorfum hæstv. fyrrv. menntmrh. Svavars Gestssonar, við því er ekkert að segja. En óumdeilt er að í tíð hans sem menntmrh. var unnið feiknalega mikið starf að grunnskólamálum og það sem meira var, það var gert eins og slíkt ber að gera í náinni samvinnu við skólamenn í landinu og í friði og sátt við þá. Maður skyldi halda að það mikla starf væri nýtanlegt nýjum ráðherra og hvers vegna svo er ekki er spurning sem ég hef ekki fengið svarað. Nú trúi ég ekki að núv. hæstv. menntmrh. vilji ekki gera vel og ekki ætla ég honum það að vilja rýra kjör landsins barna. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna nýtir hann sér ekki það mikla starf sem m.a. liggur fyrir í bók sem heitir ,,Til nýrrar aldar`` sem ég hef skilið svo hvar sem ég hef komið og talað við skólafólk að menn séu ánægðir með? Auðvitað er það engin endanleg lausn allra mála en þó sannarlega var þar unnið mikið starf sem er næsta óskiljanlegt að ekki skuli vera hægt að nýta.
    Auk þess hægt að rifja upp ýmislegt sem hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa lagt fram af málum og nægir t.d. að minna á að núv. hæstv. forseti þessa þings ásamt þeirri sem hér stendur lögðu á fyrri árum fram ítrekaðar tillögur um samfelldan skóladag og skólamáltíðir. Nú virðist þetta ekki vera forgangsverkefni núv. ríkisstjórnar.
    Reyndar er búið að tala í dag um mikilvægi þess að búa vel að börnunum í grunnskólanum og ég held að enginn deili um það. Auðvitað er það hárrétt sem hv. 2. þm. Vestf. gerði að umræðuefni áðan að það sem við höfum verið um árabil að reyna að koma stjórnvöldum í skilning um er að við búum í nýju og öðruvísi þjóðfélagi. Það er enginn heima á daginn til að hugsa um börnin. Þjóðfélagið krefst vinnuafls beggja foreldra og kostnaður heimilanna er slíkur að það er í flestum tilfellum gjörsamlega nauðsynlegt að báðir foreldrar vinni utan heimilis. Á meðan svo er þá verður þjóðfélagið auðvitað að koma til móts við fjölskyldurnar í landinu og sjá til þess að þetta bitni ekki á börnunum. Að þurfa að sjá skýrslu eftir skýrslu frá skólafólki í landinu um að börn, sérstaklega á Stór-Reykjavíkursvæðinu, séu beinlínis vannærð nær auðvitað ekki nokkurri átt. Víst kostar þetta peninga en við höfum þegar lagt til hvar væri hægt að finna þessar 100 millj. sem nú á að spara. Við hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, lögðum fram tillögu um það. Við lögðum fram tillögu um að beðið yrði með að byggja yfir Hæstarétt og veita til þess 100 millj. kr. og nota þær í staðinn til grunnskólans og við teljum það einfaldlega miklu brýnna mál.
    Hlutur Alþfl. í öllu þessu er óskiljanlegur. Manni finnst næstum því hlægilegt að opna tímarit Tryggingastofnunar ríkisins, sem lengst af hefur verið rósin í hnappagatinu á Alþfl., og sjá þar lærða grein eftir fyrrv. hv. þm. Jón Sæmund Sigurjónsson um þann merka mann Beveridge sem kom af stað almannatryggingakerfinu í Bretlandi, National Health, og hefur verið ódauðlegur síðan. Á sama tíma lætur sá flokkur, sem umræddur hv. fyrrv. þm. tilheyrir, það yfir sig ganga að gengið sé á öll helstu baráttumál Alþfl. Almannatryggingar eru skornar niður, skólakerfið er skorið niður, allt það sem snýr að fólkinu í landinu er skorið niður við trog á meðan það sem ég hef leyft mér að kalla hvað eftir annað ,,dauða peninga``, er notað í steinsteypu sem getur vel beðið betri tíma. Ef þetta er það sem Alþfl. stendur fyrir þá hefur eitthvað töluvert gerst í þeim herbúðum. Það sem hér er verið að gera kemur fyrst af öllu illilega niður á börnunum sjálfum. Skólamáltíðir eru auðvitað algjörlega nauðsynlegar og ég vildi leyfa mér að spyrja hv. þingheim hvort við vildum missa okkar heitu máltíð í hádeginu? Ekki ég. ( ÖS: Ég.) Það getur vel verið að hv. 17. þm. Reykv. og þingflokksformaður Alþfl. megi við að missa máltíð sína en við erum allmörg sem teljum okkur þurfa að borða til þess að halda starfskröftum. En á sama tíma ætlum við litlu börnunum sem eru að vaxa og þroskast að vera matarlaus meira og minna heilu dagana því að auðvitað er einhver pakkamatur á morgnana sem langflest börn borða áður en þau fara að heiman engin undirstaða fyrir starf allan daginn. Við megum ekki gleyma því að þessi börn eyða ekki minni orku en við og áreiðanlega miklu meiri. Þetta er auðvitað slíkur ábyrgðarhlutur að ekki er við það unandi.
    Skólatími barnanna er jafnfáránlegur, hann er í engu samræmi við þann tíma sem foreldrarnir eru að heiman. Ekki þarf mikið hugmyndaflug til að ímynda sér hvað getur gerst þegar börn á aldrinum 6--11 ára eru ein heima. Það má ekki mikið út af bera til þess að börnin ráði ekki við ástandið. Við getum ímyndað okkur að það komi upp eldur. Geta börn á þessum aldri brugðist skynsamlega við slíku? Auðvitað ekki. Óteljandi slíkir hlutir geta gerst sem er ábyrgðarhluti að ætla börnunum að ráða við, en ekki má setja fé skólaathvarf. Ég held að það sé alveg rétt sem hér hefur komið fram að ástandið er líklega einmitt verst í Reykjavík. Það er kannski dálítið hráslagalegt þar sem Reykjavík er sannarlega ríkasta sveitarfélag á landinu en hér er ástandið satt að segja næsta nöturlegt. En þetta ber allt að sama brunni, verið er að skera niður allt það sem áunnist hefur svo sem það að láta sér detta í hug að láta foreldra borga hluta af tannlækningum smábarna, það er svo ótrúlegt vegna þess að það segir sig sjálft að þetta sýnir sig í miklu

meiri kostnaði eftir örfá ár.
    Af því að ég minntist á þann merka mann Beveridge áðan þá hafa Bretar löngum verið frægir fyrir það að hirða ekki mikið um að borða hollan mat. Einu sinni urðu Bretar merkjanlega hraustari en alla jafna og hvenær var það? Það var í stríðinu vegna þess að matarskömmtun var tekinn upp í Bretlandi. Það voru gefnar út skýrslur t.d. um að beinabygging kvenna sem voru að fæða börn 20 árum síðar var merkjanlega betri en áður hafði verið og menn voru ekki í nokkrum vafa um að þessu var að þakka matargjöf í skólum í Bretlandi í heimsstyrjöldinni síðari. Það er ekkert smámál fyrir þjóðfélagið í heild að börn fái undirstöðugóðan mat á meðan þau eru að vaxa, þetta hélt ég að hver manneskja með heilbrigða skynsemi vissi. Ég held því að mikið alvörumál sé á ferðinni.
    Aðstaða kennara er náttúrlega svo margrædd og slíkt hneyksli, ekki síst grunnskólakennara að það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala um það einu sinni enn. Þessi starfsstétt hefur í meira og meira mæli tekið að sér uppeldi barnanna og því þyngra sem það verður því verri kjör búa þessir menn við. Ég hygg að það sé svona nokkurn veginn venjulegt að barnakennari vinni tvöfalda vinnu til þess hreint og beint að vinna fyrir sér og sínum, annað er eiginlega óhugsandi þar sem laun þessara manna eru slík að er gjörsamlega vonlaust að framfleyta einum eða neinum af þeim. Þegar það bætist svo við að börnunum fjölgar í bekkjunum þá er þetta orðið óskapnaður. Það er ekki hægt að skera niður lengur vegna þess að það er í raun og veru upplausn í grunnskólanum, ekki síst á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þolinmæði þeirra sem við grunnskólann starfa er satt að segja ævintýraleg.
    Ég veit ekki hvort hæstv. menntmrh. á tíðar ferðir í grunnskóla landsins, en ég held að það láti enga manneskju ósnortna að koma í grunnskólana og sjá það starf sem þarna er unnið og þá nemendur sem þar eru og maður fyllist auðvitað skelfingu að hugsa til þess að verið sé að rýra aðstæður þessara barna og kennara þeirra með ári hverju. Enginn aðilinn á þetta skilið og ekkert þýðir að fela sig bak við einhverja tímabundna efnahagsörðugleika. Ég man ekki eftir öðru en það hafi verið efnahagsörðugleikar síðan ég fór að komast til vits og ára, mismiklir sjálfsagt en ævinlega einhverjir og sjálfsagt verða þeir alltaf einhverjir. En þá verðum við að velja hvar okkur ber niður þegar draga þarf saman í rekstri þjóðarbúsins. Það á ekki að vera í kjörum og aðstæðum barna, síst af öllu. Ég hef margsagt að það hefði verið létt verk að finna það fé sem vantar í grunnskólann til þess að hann yrði rekinn með sæmilegum sóma. Þeir peningar eru til og er sóað út og suður í einskis verða hluti og fullkomlega gagnslausa.
    Virðulegi forseti. Ég þykist vita að mönnum þyki nóg komið um vinnutímana í þessari viku en við erum að verða vön því að vinnudagar hér séu ærið langir og ég skal ekki lengja mikið þessa umræðu. Ég vil bara biðja hæstv. menntrmh. að sýna þá skynsemi að líta aðeins á þá vinnu sem unnin var í ráðuneytinu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég held að í þeirri vinnu sé ekkert sem góður sjálfstæðismaður getur ekki fallist á og sætt sig við. Ég hef enga ástæðu til að halda að þeir hafi svo gjörólíkar skoðanir á hvers þeir telji börn þurfa með. Ég vildi því leggja til að hæstv. ráðherra kynnti sér ofurlítið það sem þar var á dagskrá.
    Ég vil minna hæstv. ráðherra á eitt atriði sem ég hef hvað eftir annað gert að umtalsefni, og reyndar með ágætri aðstoð eins varaþingmanns Sjálfstfl., Arndísar Jónsdóttur, sem var á þingi þegar ég bar fram fyrirspurn um handmenntakennslu í skólum sem er svo til gjörsamlega hrunin. Ég margbenti á að á sama tíma og menn eru að láta sig dreyma um eflingu íslensks iðnaðar er handmennta- og verkmenntakennsla í skólum hrunin í rúst. Þetta er auðvitað gjörsamlega þvert hvað á annað. Fyrrv. menntmrh. Svavar Gestsson lét kanna þetta mál að þessari fyrirspurn fenginni og auðvitað varð niðurstaðan sú að þar þyrfti verulega um að bæta. Fyrrv. hv. varaþingmaður Arndís Jónsdóttir lá heldur ekki á liði sínu að leggja á þetta áherslu.
    Ég held að allt sem við gerum skólanum til skaða í þessu landi hefni sín grimmilega og fyrr en við höldum. Það tekur ekki svo mörg ár að ala upp einstakling. Skaðinn er skeður ef ekkert er að gert þar til barnið er 14--15 ára. Þá er erfitt að bæta. Þess vegna nenni ég satt að segja ekki að ræða þessi mál í einhverjum pólitískum ágreiningi. Ég held að hér sé fremur að menn vilji ekki nýta sér verk þeirra sem á undan fóru en þrjóskist við að rjúka í að endurskoða lög sem engin minnsta þörf er á að endurskoða aðeins til að geta merkt sér málið. Þessi vinnubrögð eru svo gjörsamlega ósæmandi fyrir Alþingi Íslendinga og þau færa okkur ekkert áfram. Þetta er eins og að dansa eitt skref fram og annað aftur á bak. Auðvitað þarf að vera eitthvert samhengi í vinnu í ráðuneytunum svo menn geti nýtt sér það sem þegar er búið að gera. Ég tala nú ekki um þegar það er gert í samvinnu við skólafólk úr öllu skólakerfinu og í miklum friði og sátt og ánægju með verkið.
    Ég vil því að lokum, frú forseti, mælast til þess að menn taki þetta mál út úr pólitísku karpi, hlusti á það sem hér hefur verið sagt og reyni að koma einhverju viti í þessi mál í stað þess að gera fólki í grunnskólakerfinu og börnunum sjálfum enn erfiðara fyrir en nauðsynlegt er.