Grunnskóli

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:43:43 (4891)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í umræðum um þetta frv. í dag hefur komið fram með afgerandi hætti og viðurkennt af hæstv. menntmrh. að niðurskurðurinn í grunnskólanum á síðasta ári kom fyrst og fremst niður á kennslu í íslensku. Það er satt að segja afar alvarleg yfirlýsing af hálfu hæstv. menntmrh., ekki síst á þeim tímum þegar það liggur fyrir að þjóðin þarf í vaxandi mæli að taka þátt í ýmsum alþjóðlegum samskiptum og þegar það var líka ákveðið fyrir fáeinum dögum á Alþingi Íslendinga að opna fyrir tengsl Íslands við útlönd með þeim hætti að það er við því að búast að á þessu máli þurfi sérstaklega að hafa auga á komandi árum. Af þeim ástæðum er það m.a., virðulegi forseti, sem ég tel að ríkisstjórnin sé á hættubraut í þessu máli. Ég skora á hæstv. menntmrh. hvað sem þessu frv. líður að beita sér fyrir því að þau mistök varðandi kennslu í íslensku á þessu ári endurtaki sig ekki á komandi ári. Ég tel frv. slæmt. Ég tel að hér séu menn að spara eyrinn en kasta krónunni. Það er verið að spara hér 100 millj. kr. alls. Það eru ekki miklir fjármunir miðað við þann vanda almennt sem ríkissjóður stendur frammi fyrir, en það eru miklir fjármunir fyrir skólana og miklir fjármunir gagnvart börnum þessa lands sem verða að sætta sig við minni kennslu en ella og fleiri nemendur í bekk en ella væri. Hér er um að ræða slæmt mál af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég segi nei, virðulegi forseti.