Frestun á fundum Alþingis

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:55:34 (4897)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar þinginu var frestað fyrir jólin var flutt tillaga af þessu tagi. Það var augljóst mál og um það samstaða hér í salnum að sú tillaga var þá alger óþarfi. Forseti gat frestað fundum Alþingis án þess að samþykkja slíka tillögu. Ég tel að sú tillaga hafi verið mistök og allir þeir sem áttu aðild að henni hafi gert sér grein fyrir því.

    En af því að málinu var hreyft þá bjóst ég við því að hæstv. forseti mundi beita sér fyrir því að fram færu viðræður milli formanna þingflokkanna og forsætisnefndar um það hvernig staðið yrði að næstu þingfrestun. Mér heyrist af athugasemdum sem hér hafa komið fram að það hafi ekki verið gert. Ég tel það slæmt og skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að við næsta hlé á störfum Alþingis verði það tryggilega gert þannig að samstaða ríki um það hvernig á málum af þessu tagi sé tekið. Ég held að það sé mikilvægt að formsatriði við upphaf og lok þings, frestanir, þinghlé o.s.frv, séu skýr og ótvíræð og um þau sé full samstaða.
    Varðandi þessa tillögu vil ég segja það sem mína skoðun að ég sé ekki að þörf sé á að afgreiða hana miðað við þá breytingu sem við gerðum á þingsköpunum vorið 1991. Mér sýnist að forsrn., sem jafnan undirbýr mál af þessu tagi, búi enn við þingsköpin eins og þau voru fyrir breytingu. Ég ætla hins vegar ekki að tefla fram neinum fullyrðingum af þessu tilefni en skora á hæstv. forsrh. að kanna það mál sérstaklega.
    Í annan stað vil ég taka undir þá fyrirspurn sem kom hér fram frá hv. 1. þm. Norðurl. v. og ítreka auðvitað að miðað við þingsköpin eins og þau eru nú eru engar aðstæður né forsendur þannig að hugsanlega gæti verið réttlætanlegt að setja bráðabirgðalög. Auðvitað mundu þingmenn mæta ef kallað yrði til þings og afgreiða mál þó með litlum fyrirvara væri. Í þessari tillögu stendur, ef ég man rétt, að þingið kæmi í síðasta lagi saman þann 10. febr.