Framhaldsfundir Alþingis

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 13:33:31 (4905)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir góðar óskir í garð okkar þingmanna. Ég vil bjóða hv. þm. velkomna til starfa á ný og vona að það hlé sem gert var á störfum Alþingis hafi nýst þeim vel til annarra starfa sem af þeim er krafist en þeirra sem unnin eru á vettvangi þingsins. Forseta er kunnugt um að ófærð og illviðri hafa að einhverju leyti spillt fyrir fundaferðum en þakkarvert er að nú hefur rofað til.
    Ég vil enn fremur láta í ljós von um að störf okkar til vors verði landi og þjóð til heilla.