Atvinnuþróun í Mývatnssveit

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 13:59:37 (4911)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa mig í nokkrum orðum fylgjandi þessari tillögu. Ég held að það sé brýnt að tekið sé á málum með þeim hætti sem hún gerir ráð fyrir eða á einhvern annan máta og þessu viðfangsefni sinnt. Má segja að þörf sé á því í sjálfu sér burt séð frá núverandi stöðu mála varðandi atvinnufyrirtæki í Mývatnssveit. Aðstæður málsins einfaldlega gera það nauðsynlegt að þarna sé tekið á málum varðandi atvinnuuppbyggingu og þróunarforsendur byggðar og samfélags með mjög sérstökum hætti.

    Eins og kom fram í máli flm. þá fluttum við þingmenn kjördæmisins fyrir allnokkrum árum síðan skylda tillögu út frá þeim aðstæðum sem þá voru uppi og segja má að séu enn að ýmsu leyti. Í þeirri tillögu var m.a. vitnað til laganna um verndun Mývatns og Laxár og rakið í greinargerð hvað lá að baki lagasetningunni og hver hugsunin var af hálfu þeirra sem að því frv. stóðu á sínum tíma. Þar var réttilega á það minnt að aðstæður í Mývatnssveit eru slíkar að væri þar óbyggt svæði er næsta lítill vafi á því að búið væri að gera Mývatn og nágrenni þess að þjóðgarði eða verndarsvæði með slíkum hætti. En nú eru aðstæður aðrar. Þarna er byggð og þetta sambýli manns og náttúru er þess vegna verðugt verkefni fyrir menn að leysa.
    Sérstaða Mývatns í hópi íslenskra náttúruperlna er óumdeild. Þess sér m.a. stað í því að svæðið er tilnefnt af hálfu Íslands til Ramsar-sáttmálans, alþjóðlegs sáttmála um verndun votlendissvæða.
    Það er einnig ljóst að Mývatnssveit og það svæði þjónar geysimiklum tilgangi í íslenskri ferðaþjónustu. Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum síðan var Mývatn og Mývatnssvæðið það nafn einstakt sem langoftast kom upp þegar erlendir ferðamenn voru spurðir um ástæður þess að þeir sóttu Ísland heim eða voru spurðir um hvaða staði á landinu þeir hygðust skoða eða hefðu mestan áhuga á að sjá. Mývatn var þar langefst á blaði og um það vitnar líka geysileg umferð ferðamanna yfir sumartímann.
    Ég held að það sé ekki í sjálfu sér ástæða til að ræða að öðru leyti núverandi stöðu mála. Hún er mönnum kunn. Innan tíðar verður sjálfsagt niðurstaða fengin í það hver verður framtíð Kísiliðjunnar, sem er langmikilvægasta atvinnufyrirtæki svæðisins en jafnframt það sem vandasamast er að búa um í sambýli við hina viðkvæmu náttúru.
    Ég segi þess vegna aftur að burt séð frá því hvenær og hverjar sem verða lyktir þess máls, sem vonandi fer nú að draga að, er þörf á því að taka þróunarforsendur atvinnulífs á þessu svæði til sérstakrar skoðunar. Stjórnvöld bera þar miklar skyldur vegna sérstakra laga sem gilda um náttúruvernd á svæðinu og vegna þess að vera eignaraðili að stærstu atvinnufyrirtækjum á svæðinu bæði Kísiliðjunni og Kröfluvirkjun. Það er þess vegna ótvírætt að eðlilegt er að stjórnvöld taki á málefnum þessa svæðis sérstaklega, leggi því stuðning og kosti úttekt af því tagi sem hér er gert ráð fyrir.
    Ég vona svo að örlög þessar tillögu, sem nú er flutt af tveimur hv. þm. í umhvn., verði ekki þau sömu og áður, að sofna værum svefni á Alþingi, heldur væri mönnum meiri sómi að því að afgreiða hana og reyna að ná um það víðtækri samstöðu að afgreiða tillögu af þessu tagi og hrinda því verkefni úr vör sem tillagan gerir ráð fyrir að unnið verði á næstu mánuðum.