Atvinnuþróun í Mývatnssveit

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 14:16:51 (4916)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði mér að víkja að því sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. og reyndar einnig hjá hv. síðasta ræðumanni að vikið var að þeirri tillögu minni að þetta mál færi til umhvn. Vegna þess sem fram kom um það efni að hér væri um atvinnumál að ræða finnst mér það ekki veikja neitt grundvöllinn að minni tillögu. Ég er satt að segja undrandi á því að menn geri athugasemdir við það, eins og mál eru vaxin í þessari þjóðgarðssveit, Mývatnssveit, að um tillögur sem varða þróunarforsendur í sátt við náttúru svæðisins sé fjallað í umhvn. þingsins. Ég fagna því að hæstv. forseti bendir á að það geti verið álitamál hvert tillaga af þessum toga eigi að fara. Ég vænti þess að ekki þurfi að vera um það ágreiningur.
    Auk þess benti ég á það í framsögu minni að umhvn. hefur til meðferðar og á sinni dagskrá náskyld efni. Á fund nefndarinnar komu bæði hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. til viðræðu um stöðu þeirra mála sem auðvitað varða atvinnuþróun og atvinnumál, í þessu tilviki kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn og hennar starfrækslu. Það sýnir kannski enn þá betur hversu samfléttað þetta er að hér hljóta umhverfisforsendurnar að vera hinn almenni bakgrunnur og það frekar í Mývatnssveit en annars staðar vegna sérstakrar löggjafar um verndun svæðisins.
    Þetta finnst mér vera gild rök, virðulegur forseti. Jafnhliða vil ég ekki láta hjá líða að þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir yfirlýstan stuðning við þetta mál.