Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 14:19:49 (4917)

     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar:
    ,,Alþingi ályktar að skora á dómsmrh. að hann láti fara fram ítarlega athugun á því hve mörg tæki (skip og loftför) Landhelgisgæslan þurfi til að halda uppi fullu eftirliti innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar samkvæmt lögum nr. 41/1979 og 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi samkvæmt reglugerð nr. 299/1975. Einnig skal kanna hver viðbótin þurfi að vera verði efnahagslögsagan færð út allt að 350 sjómílum á þeim svæðum sem Ísland á rétt á samkvæmt alþjóðalögum.``
    Í greinargerð með tillögunni segir:
    ,,Eins og bersýnilega hefur komið í ljós að undanförnu má þjóðarbúið ekki við neinum skakkaföllum í efnahagslögsögunni. Efnahagslögsagan er mjög víðfeðm, um 758 þús. ferkílómetrar, eða 7,5 sinnum stærri en landið sjálft. Ekki er úr vegi að líta á þann viðbúnað sem nágrannaþjóðir okkar hafa vegna eftirlits í sínum efnahagslögsögum. Þar má nefna Norðmenn, Englendinga og Dani vegna Grænlands og Færeyja.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað samkeppnin um fiskinn í höfunum hefur aukist á síðustu árum. Ásókn fiskiskipa við 200 sjómílna mörkin og/eða miðlínur hefur aukist að undanförnu og má þar nefna svæði á Færeyjahrygg, á Reykjaneshrygg, á Dohrn-banka og norðaustur af landinu. Einnig má benda á áhuga Spánverja, Portúgala, Frakka og fleiri þjóða á fiskveiðum í Norðaustur-Atlantshafi. Skip frá öðrum heimsálfum hafa sótt til veiða við mörk efnahagslögsögunnar á undanförnum árum og má þar t.d. nefna skip frá Asíu.``
    Eflaust hefur ekki farið fram hjá þingheimi það sem nú er að gerast við 200 mílna mörkin út af Reykjaneshrygg hvar Frakkar hafa mjög sótt í búra án þess að Íslendingar hafi fylgst mjög náið þar með.
    ,,Eftir að breyting varð á lögum hvað varðar heimildir erlendra fiskiskipa til löndunar á afla í íslenskum höfnum má búast við aukningu á umferð þeirra um efnahagslögsöguna. Einnig er talsverð umferð þeirra fiskiskipa um efnahagslögsöguna sem sækja á Dohrnbanka.``
    Það er líka rétt að minna á að ekki er langt síðan Alþingi fjallaði um hugsanlegar veiðiheimildir ríkja innan Efnahagsbandalagsins til veiða hér innan fiskveiðilögsögunnar og kemur því enn frekar til kasta Landhelgisgæslunnar og enn frekar þarf hún að fylgjast með en áður hefur verið gert. Það vekur athygli mína að þegar skoðaðar eru nákvæmar tölur þeirrar breiddar og lengdar hvar fyrirhuguð veiðisvæði þessara skipa eru kemur í ljós að þeir sem hafa þar um samið hafa líklega ekki hugað að því hvernig best væri háttað varðandi eftirlit með þeim skipum sem eiga að veiða innan markanna. Ég mun láta þetta sjókort liggja hér til upplýsingar fyrir þingmenn. Þar kemur greinilega fram að um tvö svæði er að ræða. Annars vegar svæði sem tengist 200 sjómílna fiskveiðilögsögunni og hins vegar svæði við Reykjaneshrygg og Selvogsbanka nokkuð fyrir innan landhelgislínu. Skip þurfa því að sigla nokkuð innan 200 mílna landhelgi áður en á hið eiginlega veiðisvæði er komið.
    ,,Ekki má gleyma hversu mikilvægt er að halda uppi öflugu eftirliti vegna mengunar sjávar. Ef upp kæmi mengunarslys innan efnahagslögsögunnar og/eða frétt um slíkt gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir markaði á sjávarafurðum okkar erlendis. Stærð efnahagslögsögunnar við Ísland og þýðing hennar fyrir þjóðarbúið er svo mikil að ekki má hætta á neitt er dregið gæti úr strangri gæslu á auðlindinni.``
Það er ekki langt síðan Landhelgisgæslan tók upp eftirlitsflug varðandi vöktun hafsins úr lofti innan mengunarlögsögu Íslands, en það var 1. jan. Við höfum orðið áþreifanlega varir við þau mengunarslys sem hafa orðið ekki langt frá okkur hvar stór olíuskip hafa strandað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
    Það er athyglisvert þegar rætt er um Landhelgisgæsluna hvað menn eru bundnir við það að Landhelgisgæslan sé eingöngu á siglingu innan fiskveiðilögsögunnar og í eftirliti sem byggist eingöngu á því að fylgjast með hvort skip er að veiðum eða ekki.
    Landhelgisgæslan hefur eins og þingmönnum er kunnugt um séð um eftirlit með okkar eigin skipum. Lítið dæmi um hversu nauðsynlegt það er var þegar Landhelgisgæslan stoppaði íslenskt skip fyrir ekki löngu. Þá kom í ljós að veiðileyfi var ekki um borð. Það var heima hjá útgerðarmanninum gefið út á annan bát með sama nafni. Haffæriskírteinið var ekki um borð. Það var geymt hjá útgerðarmanninum. Bjarghringir voru merktir öðrum bát. Lögskráningu vantaði. Atvinnuskírteini voru ekki um borð. Þjóðernisskírteinið og mælibréf ekki útgefið á sama skipsnafn og ekki vitað hvenær gúmmíbátar voru skoðaðir. Þetta er lítið dæmi um þau afskipti sem Landhelgisgæslan hefur þurft að hafa af skipaflota okkar og af upptalningu minni áðan má sjá að ekki veitir af. Því miður.
    Þá er til að taka aldur þeirra varðskipa sem nú eru til taks. Þá er fyrst til að nefna okkar nýjasta varðskip sem er orðið 18 ára gamalt. Þá kemur varðskipið Ægir sem er 25 ára og Óðinn 33 ára gamalt. En meðalaldur fiskiskipaflotans núna er rétt rúm 17 ár. Þá er Fokkerflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-Sýn, 16 ára og sú þyrla sem mest er notuð komin vel á áttunda árið.
    Það má ljóst vera að hér er verk að vinna. Ef við Íslendingar ætlum að gæta okkar efnahagslögsögu er vissulega orðið tímabært að tekist verði á við mál sem snerta Landhelgisgæsluna og mótuð stefna í því hvað við ætlum að gera þó ekki sé nema eitt haft til hugar. Ef við ætlum að yngja upp í flota Landhelgisgæslunnar þá tekur það a.m.k. fjögur ár og hafandi í huga hvað aldur varðskipanna er hár miðað við það sem almennt gerist nú er ekki seinna vænna en að þessi vinna fari fljótlega af stað, þ.e. ítarleg athugun á því hve mörg tæki, þ.e. flugvélar og skip, Landhelgisgæslan þarf á að halda í framtíðinni og hvernig við ætlum að gæta lögsögu okkar þá fram líða stundir.