Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 14:28:40 (4918)

    
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi fagna því að hv. flm. eru að hreyfa við þessu máli. Það er þarft og skylt að huga að málefnum Landhelgisgæslunnar og ekkert nema gott eitt um það að segja. Ég held hins vegar að það væri óraunsætt og barnaskapur að ræða þetta málefni án þess að skoða í sömu andrá hvaða starfsskilyrði Landhelgisgælunni eru búin nú um stundir til að sinna sínum verkefnum. Menn geta haft góðar meiningar og flutt ágætar tillögur um nauðsyn þess að skilgreina verkefni Landhelgisgæslunnar og gera á því könnun hversu mikinn tækjakost Gæslan þurfi til þess að sinna sínum verkefnum en það mun auðvitað ekki leysa þann eiginlega og efnislegan vanda sem Gæslan á við að stríða og felst í ónógum fjárveitingum til rekstrar. Við höfum því miður núna á allra síðustu árum og einkum tvö síðustu ár séð mikla afturför þannig að Gæslan hefur orðið að draga verulega saman í rekstri skipakosts síns og þrátt fyrir langan aðdraganda hefur enn ekki tekist að knýja fram ákvörðun um endurnýjun á björgunartækjakosti Gæslunnar. Þá á ég einkum og sér í lagi við þyrlu til björgunarstarfa.
    Ég held því að eigi þessi tillaga að ná tilgangi sínum þá verði henni jafnframt að fylgja úttekt að því leytinu til hvaða tekjur þarf Gæslan til að sinna sínum verkefnum og auðvitað breytingar á fjárhagsmálefnum hennar í þá átt að hún geti haldið uppi þeim umsvifum og úti þeim rekstri sem til þarf. Annars er þetta því miður, með fullri virðingu fyrir flm., fyrir fram dauðadæmt pappírsgagn ef ekki fylgir með það sem við á að éta, þ.e. þau starfsskilyrði fyrir Landhelgisgæsluna að hún geti sinnt sínum verkefnum.
    Ég tók það upp í fyrra og spurði hæstv. dómsmrh. um það hvað liði áformum um endurnýjun á skipakosti Gæslunnar. Ég hafði rekið mig á þá staðreynd, eins og hv. síðasti ræðumaður einnig, að skipakostur Gæslunnar er nokkuð að komast til ára sinna, það yngsta nálgast það nú að fylla annan áratuginn. Ég varð þess vegna fyrir nokkrum vonbrigðum með svör hæstv. dómsmrh. Þau voru efnislega á þá leið að það væri ekki komið að því á næstunni að ráðast í endurnýjun á skipakosti Gæslunnar. Ég hafði bundið vonir við það að a.m.k. væri orðið tímabært að hefja undirbúning að slíkum ákvörðunum og gjarnan hefðu menn mátt hafa í huga möguleikana á því að þar gæti orðið um að ræða einhver verkefni fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað.
    Sama er auðvitað að segja um flugvélakostinn og sérstaklega er það þó björgunarþyrlan, stóra þyrlan, sem orðið er, og reyndar fyrir löngu, brýnt að taka ákvörðun um endurnýjun á. Það mun vera á þessu ári sem sú vél á að fara í viðamikla skoðun og það er alveg ljóst að hún hlýtur að verða úr rekstri svo skiptir mánuðum, bæði vegna lögbundinna eða reglubundinna skoðana, eftirlits og líka vegna bilana sem gerast auðvitað tíðari með aldrinum. Þeir voru allmargir dagarnir t.d. í janúarmánuði sl. sem þyrlan var ekki flughæf og fór hún þó í fjöldamörg útköll.
    Í öðru lagi vil ég taka undir það, sem nefnt er í þessari till., að það þarf að endurskoða verkefni Gæslunnar að nokkru leyti í ljósi nýrra aðstæðna í landhelgismálum okkar og með breytta sjósókn í huga. Þá á ég sérstaklega við aukna ásókn í fiskimiðin í suður og suðvestur af landinu og má segja bæði auknar veiðar Íslendinga sjálfra á þeim hafsvæðum en ekki síður þó greinilega stóraukna ásókn útlendinga á fiskimiðin suður og suðvestur og jafnvel suðaustur af landinu. Það er t.d. upplýst að allmargir erlendir togarar hafa á sl. ári og í byrjun þessa árs verið að veiðum rétt við 200 sjómílna mörkin suður af landinu. Á hinn bóginn hefur Landhelgisgæslan sárasjaldan svo mikið sem séð þessi skip, hvað þá að skip hafi komist þangað út til þess að vera þar við eftirlit af hálfu okkar. Endrum og sinnum er flogið yfir þetta svæði og þá er það gjarnan svo að þar er talsverður floti erlendra fiskiskipa rétt við íslensku lögsögumörkin.
    Þarna þarf að verða breyting á. Við þurfum að ná því að sinna þarna betur eftirliti og einnig undirbúa það ef gert verður aukið tilkall til réttinda okkar Íslendinga til hafsvæðanna í þessa átt.
    Það er einnig enginn vafi á því að aukist sóknin svo sem nú horfir í fiskstofna á þessum slóðum þá kemur að því fyrr eða síðar að takmarka verður þá sókn með einum eða öðrum hætti og stýra sókninni í þessar tegundir. Þær eru væntanlega ekki óþrjótandi frekar en aðrir stofnar og þá kemur til samninga vonandi undir alþjóðlegu eftirliti um nýtingu á þessum auðlindum og þar hlýtur Ísland, eðli málsins

samkvæmt, að hafa miklu hlutverki að gegna, annars vegar sem veiðiþjóð og hins vegar virðist liggja í hlutarins eðli að sá aðili sem nærtækast væri að annaðist eftirlit með slíkum veiðum værum við Íslendingar.
    Að mörgu fleiru er auðvitað að hyggja í okkar landhelgismálum. Ég hef flutt tillögur og fengið reyndar samþykktar hér á Alþingi um að ráðist verði í að styrkja Kolbeinsey, grunnlínupunkt okkar í norðri, sem stækkar íslensku lögsöguna um 9.600 ferkílómetra, hvorki meira né minna, og nú eru um það upplýsingar að Danir hugsi sér til hreyfings og muni jafnvel höfða mál gegn Íslendingum í kjölfar þess að þeir fá niðurstöðu í deilu sína við Norðmenn um miðlínu milli Jan Mayen og Austur-Grænlands. Alþjóðadómstóllinn mun fella dóm í því máli í vetur eða vor og samkvæmt upplýsingum úr dönskum blöðum þá er í undirbúningi nú þegar af hálfu Dana sókn á hendur okkar Íslendinga í kjölfarið á því að lyktir ráðast í deilu þeirra við Norðmenn.
    Ég held þess vegna að verkefnin séu mörg og full þörf á því auðvitað að fara yfir þau og skilgreina þau og þess vegna væri, ef eitthvað væri, ástæða til þess að breyta þessari tillögu í meðförum þingsins þannig að hún yrði víðtækari, tæki á fleiri þáttum í okkar landhelgismálum og verkefnum okkar Landhelgisgæslu. En hitt verður auðvitað að hafa í huga og þýðir ekkert að horfa fram hjá að allt slíkt eru orðin tóm nema með fylgi það sem við á að éta, þ.e. rekstrarfjármunir til handa Landhelgisgæslunni þannig að hún geti staðið í stykkinu. Það verða hv. stjórnarliðar og þar með talið flutningsmenn að horfast í augu við ef þeir hafa stutt þær fjárveitingar sem gengið hafa til Gæslunnar á þessu ári og hinu síðasta, að þar er svo sannarlega ekki stefnt í rétta átt heldur þvert á móti og ákaflega dapurlegt að sjá í raun og veru hvernig þrengt hefur verið að Gæslunni á síðustu árum, bæði hvað fjárveitingar og auðvitað líka hvað tækjakostinn snertir, en ekkert hefur gerst því miður, ekkert hefur gerst í formi ákvarðanatöku um endurnýjun á tækjakosti, hvorki björgunartækjum, þyrlunnar né skipum.