Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 14:37:49 (4919)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér um en ég vil lýsa því yfir að ég er efnislega hjartanlega sammála því að það þarf að láta fara fram ítarlega athugun á því hve mörg tæki Landhelgisgæslan þarf til að halda uppi eftirliti innan fiskveiðilögsögu okkar. Hins vegar dugar ekki athugun ein og sér heldur þarf líka að fylgja þessu eftirliti eftir og það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni --- eða þorskinum.
    Þar er greinilega, eins og hér hefur komið fram raunar í þessari umræðu, mjög alvarlegt ástand. Við erum ekki í stakk búin til þess að sinna því eftirliti sem við þurfum nú þegar og því miður þá er það að bjóða upp á frekari vanda þar sem við höfum opnað lögsögu okkar fyrir erlendum skipum, fleiri en þessum gömlu belgísku togurum sem áður fengu að vera hér og, þetta hlýtur að sjálfsögðu að þýða það að við þurfum enn að efla þessa gæslu og það hversu vel sem staðið verður að eftirliti um borð. Það mætti raunar hafa langt mál um þann hluta Landhelgisgæslunnar en það er rétt að vekja athygli á því að Landhelgisgæslan var ekki kölluð til viðtals um þann sjávarútvegssamning sem við höfum nýverið illu heilli samþykkt á Alþingi. Hérna á ég við fiskveiðisamninginn á milli Evrópubandalagsins og Íslendinga.
    Varðandi þyrlumál þá held ég að sú raunasaga sé hér flestum kunn og sem betur fer þá held ég að ég muni það rétt að hv. 1. flm. þessa máls sé jafnframt meðflutningsmaður á því frv. sem nú kemur brátt til umræðu en samkvæmt frv. á að búa svo um hnútana að keypt verði ný öflug þyrla sem við erum fullsæmd af og þar er greinilegt að flm. lætur fara saman vilja til athugunar og athafna.
    Þetta eru atriði sem mér þykir nauðsynlegt að við höfum í huga við þessa umræðu og ég geri ráð fyrir því að við skoðun í nefnd komi það í ljós að þörfin á slíkri athugun sé brýn og að það sé jafnframt brýnt að búa svo um hnútana að við sitjum ekki uppi með þá aðstöðu, sem við höfum nú, að vera með gjörsamlega vanbúna Landhelgisgæslu, kannski að öðru leyti en því að mannskapurinn þar er mjög vel í stakk búinn til að sinna sínu hlutverki. Við verðum að hafa tækjakost og við verðum að hafa rekstrarfé til þess að hægt sé að vinna að þessu gífurlega mikilvæga máli.