Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 14:58:47 (4922)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Síðustu setningarnar í ræðu hæstv. sjútvrh. voru í góðu lagi. Þar var hann að lýsa því yfir að nauðsynlegt væri að sækja þennan rétt og það yrði gert af kappi o.s.frv. Þeim orðum ber að fagna. En fyrri parturinn í svari hans við ummælum mínum var hins vegar á þá leið að telja hér upp í löngu máli að Íslendingar gætu ekki þetta og Íslendingar gætu ekki hitt. Ég var að fara fram á það hér að ráðherrann hefði sókn í sínum málflutningi í þessu máli, þegar hann talaði opinberlega um málið, hvort sem væri við fjölmiðla eða hér á Alþingi þá færi hann með nauðsyn þess að Íslendingar sæktu þann rétt að stjórna þessum veiðum og túlkuðu það sem er óljóst í hafréttarsáttmálanum alveg skýrt sér í hag. Það væri óskandi að ráðherrann fylgdi áfram þeim blæ sem var á hans lokaorðum hér. Þá munum við standa með honum í því.
    Hins vegar held ég að það sé ofsagt að það hafi verið unnið að þessum málum af kappi. Ég vil minna á það að lítið hefur heyrst af viðræðufundum við Breta og Íra um hagsmuni okkar á þessu svæði. Lítið hefur heyrst af sameiginlegum fundum okkar með Færeyingum og Dönum til að sækja okkar rétt. Það væri a.m.k. mjög fróðlegt ef hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. hafa beitt sér fyrir slíkum fundum á síðustu 12--18 mánuðum. Ég hef ekki orðið var við það. Það hefur ekki verið gefin skýrsla í utanrmn. um slíka fundi. En úr því að hv. þm. Björn Bjarnason er kominn hér í salinn þá vil ég nota þetta tækifæri til að ítreka að það ágæta merki, sem fyrirrennari hans í formannssæti í utanrmn. hélt á lofti í þessari réttindabaráttu, verði ekki látið niður falla og utanrmn., í tilefni af þessari till. sem hér er flutt, taki nú þegar við að fylgja fram þessum réttindum eins og gert var ítarlega og oft í umræðum hér fyrr á árum.