Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:04:46 (4925)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ástæðan fyrir því að við höfum náð svo miklum árangri sem raun ber vitni í því að færa út landhelgina og verja þann rétt okkar er nú fyrst og fremst sá að þessi þjóð hefur borið gæfu til að standa saman. Menn hafa ekki verið með brigslyrði hvort heldur þeir hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Menn hafa ekki verið að nota þessi mál í hefðbundnum pólitískum átökum hér innan lands af því að menn hafa gert sér grein fyrir því að því aðeins gætum við náð okkar réttindum að menn stæðu saman.
    Þess vegna vísa ég þessum ummælum og umfjöllun hv. 8. þm. Reykn. á bug. Það þjónar ekki íslenskum hagsmunum að snúa út úr ummælum manna eins og hann hefur gert hér í þessari umræðu og fara ranglega með. Það sem skiptir máli er að fylgja eftir ákveðinni stefnu í þessu efni þar sem ýtrustu kröfur um okkar réttindi eru gerðar. Það hefur verið gert á undanförnum árum, það hefur verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar, og verður gert á næstunni. Um það eigum við að sameinast en ekki að vera að freista þess að koma einhverjum hælkróki hver á annan, þó það geti verið freistandi í innanlandsátökum, af því að sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að menn standi saman í þessu efni.