Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:06:10 (4926)

     Árni R. Árnason :
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka undir málflutning tillöguflytjenda og nefna það sjónarmið mitt að mér virðist að okkar hagsmunir í hafinu, hvort sem er á grunnslóðinni eða innan lögsögunnar og í úthafinu utan hennar séu svo miklir og margbrotnir að við hljótum á öllum tímum að vera tilbúnir og telja okkur nauðsyn að skoða vel og gaumgæfilega burði, búnað og aðstöðu Landhelgisgæslunnar sem fer með gæslu þessara hagsmuna.
    Ég tek undir að hennar búnaður og burðir séu skoðaðir. Við þurfum að móta okkur stefnu og langtímaáætlun um framkvæmd þess sem hún þarfnast þannig að hún geti rækt það hlutverk sitt sem best og eins og okkur sýnist þurfa. Það er rétt að hlutverk hennar hefur breyst á umliðnum árum frá því að við stóðum í harðri baráttu við grannþjóðir okkar. En það breytir því alls ekki að við höfum þessara hagsmuna að gæta. Ekki hvað síst þeirra sem fram eru að koma með vaxandi þunga, mengun sjávardjúpsins, mengun á fiskimiðum er hugsanlega skammt undan og það er eitt af þeim verkefnum sem Gæslunni hefur verið fengið í vaxandi mæli, auk þess sem hún fer með löggæslu og eftirlit á öllum miðunum. Hún hlýtur að gera það út fyrir fiskveiðilögsöguna þegar okkar sjómenn taka þar til starfa og við treystum Landhelgisgæslunni öðrum fremur til að tryggja öryggi sjómanna okkar hvort sem er upp í landsteinum eða utar.
    Ég tek, virðulegur forseti, undir þessa till. og vænti þessa till. og vænti þess að hún megi draga fram í dagsljósið upplýsingar um burði og getu Gæslunnar eins og þeir eru núna og áætlanir okkar sjálfra og ákvarðanir um það hverjir þeir verði á næstu árum.