Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:08:25 (4927)


     Guðjón A. Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar að gera hér grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef tekið þátt í að móta varðandi þau markmið sem ég tel að Landhelgisgæslan eigi að vinna að í framtíðinni. Eins og sjútvrh. og dómsmrh. gat um hér áðan í umræðunni þá er nefnd að vinna að endurskoðun á lögum um starfsemi Gæslunnar. Mér finnst rétt í þessari umræðu að upplýsa það hvað skipstjórnarmenn almennt á Íslandi hafa lagt til að yrði verkefni Landhelgisgæslunnar til framtíðar og leyfa þeim þingmönnum sem eru hér við umræðuna að vita af þeim markmiðum sem við höfum látið frá okkur fara. Þau hljóða á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Að hafa með höndum almenna löggæslu og eftirlit á hafinu umhverfis Ísland, jafnt innan sem utan landhelgi og innan fiskveiði-, efnahags- og mengunarlögsögu, einnig á þeim hafsvæðum sem Íslendingar hafa hagsmuna að gæta og samræmast alþjóðalögum og milliríkjasamningum.
    Að fara með ábyrgð og yfirstjórn leitar- og björgunarþjónustu við sjófarendur á hafsvæðinu umhverfis Ísland í samvinnu við innlenda og erlenda aðila.
    Landhelgisgæslan skal veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi svo sem að annast aðkallandi sjúkraflutninga, flutninga á sjúkraliði.
    Landhelgisgæslan skal aðstoða eða bjarga bátum og skipum sem kunna að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum á sjó.
    Að annast tilkynningaskyldu vegna erlendra skipa samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasamningum í umboði samgrh.
    Að veita afskekktum stöðum eða byggðarlögum nauðsynlega hjálp eða aðstoð þegar eðlilegar samgöngur bregðast af ófyrirsjáanlegum orsökum, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðris eða annarra náttúruhamfara sem og annarra óviðráðanlegra orsaka.
    Að hafa með höndum fiskveiði- og veiðarfæraeftirlit á hafi úti og í höfnum og fylgjast með aflamagni innlendra og erlendra skipa í umboði Fiskistofunnar og hafa einnig með höndum eftirlit með lax- og silungsveiðum í sjó.
    Að sjá um sjómælingar og taka þátt í haf- og fiskirannsóknum svo og öðrum vísindastörfum. Einnig þátttaka í hafís- og veðurathugunum, geislamælingum til sjós eftir því sem kann að verða ákveðið hverju sinni.
    Að tilkynna, fjarlægja og gera reköld skaðlaus, tundurdufl, sprengjur eða aðra huti sem sjófarendum eða almenningi getur stafað hætta af. Sjófarendum og almenningi ber að tilkynna um slíka hluti til Landhelgisgæslunnar.    
    Að annast á hafi úti eftirlit með framkvæmd laga og reglna um haffærni skipa, skyndiskoðun búnaðar og skipsskjala, lögskráningu sjómanna, eftirlit og/eða brot með tilkynningu til Siglingamálastofnunar ríkisins og viðkomandi lögskráningarstjóra.
    Að aðstoða við framkvæmd almannavarna, almenna löggæslu á landi, tollgæslu, við aðkallandi flutninga á hjúkrunarliði, sjúklingum með skipum og/eða loftförum.``
    Þetta er ekki lítil upptalning á þeim verkefnum sem hagsmunasamtök yfirmanna hafa talið að Landhelgisgæslan ætti að takast á við í framtíðinni. Þess vegna tel ég mjög brýnt að sú nefnd sem er að vinna að athugun á framtíðarfyrirkomulagi og skyldum Landhelgisgæslunnar vinni hratt og ljúki störfum sem fyrst.
    Vissulega má um það deila hvernig á að standa að endurnýjun og skipulagi á tækjakosti Landhelgisgæslunnar. En því er ekki að leyna og hefur greinilega komið fram í umræðunum og kemur fram í tillögunni að skipin eru orðin gömul og það þarf að huga að endurnýjun þeirra. Í því sambandi langar mig að vekja athygli á því að ég tel að við hönnun á nýju varðskipi eigi ekki eingöngu að hugsa til þess að þau séu með þeim hætti sem þau eru í dag heldur að þau séu einnig búinn þannig að þau geti stundað tilraunaveiðar. Þau geti tekið tog og framkvæmt veiðieftirlit með þeim hætti og þau geti líka komið inn í fiskirannsóknir á svæðum þar sem ástæða þykir til þannig að þetta verkefni og nýting skipanna verði sem mest og möguleikar þeirra verði sem mestir.
    Ég get ekki annað en lýst þeirri skoðun minni að ég tel að sá dráttur sem hefur orðið á framkvæmd þess að kaupa nýja björgunarþyrlu, þar sem það hefur komið inn í þessa umræðu, sé okkur til vansa og að það mál verði að leysast á þessu þingi.