Tvöföldun Reykjanesbrautar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:16:52 (4929)

     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 258 er birt sú till. til þál. sem ég mæli fyrir. Flm. auk mín eru þau Salome Þorkelsdóttir, Árni M. Mathiesen, Sigríður A. Þórðardóttir og Ingi Björn Albertsson.
    Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta nú þegar hefja undirbúning að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lögð verði ný akbraut við hlið hinnar gömlu þannig að Reykjanesbraut verði fullkomin hraðbraut með aðskildum akstursstefnum og tveimur akreinum til hvorrar áttar.``
    Tillaga af þessu tagi hefur verið flutt fjórum sinnum fram að þessari eða samfellt á Alþingi frá 1987. Endurtekinn tillöguflutningur ber þess merki að flm., og raunar fleiri sem hafa tjáð sig um efnið, telja mjög brýnt að bæta öryggi umferðar og vegfarenda á Reykjanesbrautinni.
    Reykjanesbraut er sérstæð meðal þjóðvega landsins. Hún tengir höfuðborgina við eina alþjóðaflugvöllinn í áætlunarflugi milli landa og liggur gegnum þrjá af fjölmennustu kaupstöðum landsins. Nær allir ferðalangar til og frá landinu fara um flugvöllinn og um Reykjanesbraut til allra annarra landshluta, innlendir sem erlendir. Ferð um Reykjanesbrautina er þess vegna bæði fyrstu og síðustu áhrif á minningar um dvöl á Íslandi. Um brautina fara miklir flutningar bæði að og frá flugvellinum svo og að og frá atvinnusvæðinu á Suðurnesjum sem er eitt af öflugustu sjávarútvegssvæðum á landinu.
    Allar fyrirætlanir, bæði á Suðurnesjum og í öðrum landshlutum, um aukinn útflutning fullunninna ferskra sjávarafurða beint á neytendamarkað í Evrópu eða á önnur markaðssvæði munu auka mikilvægi brautarinnar því að lausn þess er fólgin í flutningi um flugvöllinn.
    Það er í sjálfu sér ekkert ómögulegt að slíkir flutningar eigi sér stað. Flutningar á hráefni milli landshluta eru nú daglegir viðburðir nær allan ársins hring.
    Brautin eins og hún er í dag var lögð á árunum 1963--1965. Hún er því að verða 30 ára gömul. Það má því segja að hún sem slík hafi slitið barnsskónum og vel það. Hún var þá svar við mjög brýnni þörf vegna mikillar og þungrar umferðar um gamlan og lélegan malarveg. Með lögn slitlags urðu tímamót með aukinni flutningsgetu, greiðfærari umferð og bættu öryggi. Þar með urðu straumhvörf í samskiptum íbúanna á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, vaxandi samskiptum atvinnufyrirtækja og atvinnulífsins og má segja að allt síðan hafi gætt nokkurs samruna vinnumarkaðarins á þessum tveimur svæðum. Árangurinn varð öflugra atvinnulíf á Suðurnesjum. Það mátti vel greina á næstu árum á eftir og hefur að sjálfsögðu staðið síðan.
    Á sama árabili var millilandaflug okkar flutt til Keflavíkurflugvallar enda var hann þá og enn síðan einn af best búnu flugvöllum við norðanvert Atlantshaf. Síðan hefur gætt þess, sem ég nefndi áðan, að nær allir farþegar sem koma til landsins, erlendir og innlendir, fara um ekki aðeins flugvöllinn heldur einnig Reykjanesbraut. Hún er að sjálfsögðu sem slík þjóðvegur allra landsmanna, ekki eingöngu Reyknesinga eða Suðurnesjamanna. Ég nefni aftur þau áhrif sem hún hefur á minningar ferðamanna um komu og dvöl á Íslandi. Öryggi á Reykjanesbrautinni ræður miklu um hvernig þeir minnast Íslands. Ég hef sjálfur kynnst þeim áhrifum á ferðalanga sem ég hef átt leið með eða kvatt á flugvellinum og verð að segja að þau áhrif eru ekki alltaf mjög skemmtileg.
    Bættar samgöngur eru mjög mikilvægar til að tengja enn betur atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Rétt er að benda á að ábendingar um úrræði við slæmu atvinnuástandi þar hafa þar til nýlega eingöngu verið fólgnar í því að Suðurnesjamenn geti sótt atvinnu til Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins. Það gerist í dag, fer vaxandi og krefst meira öryggis í umferðinni og meiri flutningsgetu. Í dag fara á milli endimarka þessarar brautar, milli þessara svæða, nærfellt 1.000 manns daglega til vinnu fyrir utan alla aðra sem leið eiga um. Bættar samgöngur eru auk þess mikilvægar vegna byggðaþróunar á Suðurnesjum, vegna væntalegrar aukinnar nýtingar alþóðaflugvallarins og flugstöðvarinnar. Þær eru lykilatriði í að framkvæma hugmyndir sem við höfum lengi átt um að nýta flugvöllinn betur en áður til að mynda með tollfrjálsu iðnaðarsvæði, með svæði fyrir raunveruleg alþjóðaviðskipti. Það ítrekar þörfina nú að fram undan er að taka í notkun nýtt og stórt flugskýli Flugleiða þar sem starfsmenn Flugleiða munu annast ekki aðeins eftirlit og viðhald á eigin vélum heldur einnig á flugvélakosti annarra aðila.
    Við höfum lengi gert okkur vonir um að ferðaþjónusta muni aukast um land allt ekki síst á Suðurnesjum og þess eru sæmileg merki. Þó er þess að geta að fjölgun ferðamanna virðist nú um stundir ekki mikil.
    Þá verður að geta þarfa atvinnulífs á Suðurnesjum. Þar hefur sjávarútvegurinn sjálfur dregist saman en aðrar atvinnugreinar, sem hefði mátt ætla að yrðu öflugri, hafa ekki reynst færar um að taka við vaxandi fjölda starfsfólks. Það hefur aftur leitt til vaxandi umferðar um brautina vegna atvinnusóknar frá Suðurnesjum til höfuðborgarsvæðisins sem ég hef minnst á áður.
    Enn skortir á að óvenjuleg aðstaða á Suðurnesjum til að flytja út sjávarafurðir og aðrar afurðir hafi verið fyllilega nýtt. Ástæður þess má að sumu leyti rekja til þess að brautin hefur ekki fengið þær umbætur í öryggi og flutningsgetu sem hún þarfnast. Flestar hugmyndir um aukna atvinnu í þessum landshluta byggja á því að umferð verði aukin um Reykjanesbrautina. Hvenær svo sem verður af byggingu næstu stóriðju á Íslandi er næsta víst að það verður á Suðurnesjum. Það eitt mun stórauka umferðina.
    Ástandið er þannig nú að umferðin eykst nokkuð, sérstaklega þó flutningaumferð. Þær upplýsingar liggja fyrir frá Vegagerð ríkisins að um Reykjanesbraut fer nær tvöfalt meira af þungaflutningum en um aðra þjóðvegi og meira en tvöfalt meira af olíuflutningum af ýmsu tagi. Ef við berum saman óhöpp og slys við sambærilegan þjóðveg sem er Suðurlandsvegur, þá kemur í ljós að á Reykjanesbraut eru óhöpp og slys meira en tvöfalt það sem er á Suðurlandsvegi. Það hefur líka komið sérstaklega fram við athugun að slys í þessum óhöppum eru enn þá meiri á Reykjanesbraut en á Suðurlandsvegi og hafa sérfræðingar Vegagerðarinnar og Umferðarráðs rakið það til sérkenna í landslaginu við brautina sjálfa sem verður til þess að við öll óhöpp eru meiri líkur á slysum og meiri líkur á skemmdum á ökutækjum.
    Umferð um Reykjanesbraut er að einu leyti mjög ólík umferð um aðra þjóðvegi. Það er hversu mikil næturumferðin er og að hún er öll tímabundin, bundin við upphaf vinnudags, brottför flugs eða upphaf starfsvaktar.
    Það er álit Vegagerðar ríkisins að almennt muni umferð 8--10 þús. bíla á sólarhring vera fjárhagsleg undirstaða arðsemi slíkra framkvæmda sem hér um ræðir. Það er án tillits til hlutfalls þungaflutninga og án tillits til þjóðhagslegs kostnaðar af óhöppum og slysum. Mínar athuganir á þessu tvennu segja mér að á Reykjanesbraut ætti bílafjöldi sem skilyrði að vera miklu lægri en 8--10 þús. Bílafjöldi þar er núna á áttunda þúsundið.
    Ef nefna má tölur um þann mannfjölda sem notar Reykjanesbraut þá er íbúafjöldi á Suðurnesjum nú um 15.000, auk varnarliðsins önnur 5.000, auk þess eru nærfellt 1.000 manns sem sækja atvinnu til Suðurnesja frá höfuðborgarsvæðinu, en flugfarþegar um Keflavíkurflugvöll eru um 700 þús. á ári eða jafnmikið og um alla aðra flugfelli landsins samanlagt.
    Það sem mér sýnist þó skipta mestu, virðulegur forseti, er öryggi umferðar og vegfarenda um Reykjanesbraut. Mér finnst skipta máli að við setjum okkur það markmið að óhöpp og slys á mönnum í umferð á Reykjanesbraut verði ekki meiri en um aðra sambærilega þjóðvegi. Til þess þarf að bæta verulega ástandið frá því sem nú er.
    Nú er unnið við að lagfæra brautina, en þeim aðgerðum öllum á að ljúka síðar á þessu ári. Það er álit Vegagerðar ríkisins að þær aðgerðir dugi ekki til að bæta öryggi umferðar. Til að svo megi verða þurfi tvöföldun brautarinnar.