Fjárframlag til atvinnumála á Suðurnesjum

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:39:51 (4932)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Áhugi hæstv. ráðherra um atvinnumál á Suðurnesjum er mikil sorgarsaga. Það áhugaleysi staðfestist enn á ný í svari hæstv. forsrh. Ætli það sé ekki u.þ.b. ár síðan sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum óskuðu eftir að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. kæmu í heimsókn á Suðurnes til að ræða þennan atvinnuvanda. Þeir fóru þangað. Þar gerðu sveitarstjórnarmenn þeim grein fyrir því að mikill vandi væri í atvinnumálum á Suðurnesjum. Þá sagði hæstv. forsrh. að hann væri algerlega andvígur sértækum aðgerðum fyrir Suðurnes. Það yrðu engar sértækar aðgerðir fyrir Suðurnes. Þannig leið tíminn að aðgerðaleysið setti svip á afstöðu ríkisstjórnarinnar.
    Nú er það ekki þannig að ríkisstjórnin telji aðgerðaleysið vænan kost á öllum sviðum. Það er t.d. athyglisvert að hún gat á einum eða tveimur sólarhringum í fyrra ákveðið framkvæmdir í vegamálum upp á í kringum 2 milljarða. Og hún gat á einni helgi hér í nóvember ákveðið viðamikið ,,prógramm`` í efnahagsmálum. Þá þurfti ekki marga mánuði. En þegar kemur að atvinnumálum á Suðurnesjum gerist aldrei neitt raunhæft. Það hefur ekki heldur gerst enn, hæstv. forsrh.
    Það er rangt hjá forsrh. að það hafi aldrei verið gefið í skyn að þessir peningar kæmu frá ríkisstjórninni. Það var oft gefið í skyn, m.a. á fundi þar sem við vorum ýmsir sem hér erum í salnum. Hæstv. menntmrh. meira en gaf það í skyn að eitthvað mundi koma frá ríkissjóði, a.m.k. neitaði hann því alls ekki.

    Mér vitanlega liggur ekki ljóst fyrir enn hvernig á að verja þessum fjármunum sem koma frá Íslenskum aðalverktökum eða hverjir eigi að taka ákvarðanir um það. Það hefur ekkert verið tilkynnt um það enn. Og ef hæstv. forsrh. getur upplýst það í umræðunum hver á að taka ákvörðun um ráðstöfun þeirra 300 millj. sem eiga að koma frá Íslenskum aðalverktökum þá væri það a.m.k. áfangi í þessari, því miður, miklu sorgarsögu um afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnuleysið á Suðurnesjum.