Fjárframlag til atvinnumála á Suðurnesjum

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:44:26 (4934)


     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. þm. hinn 7. og 8. frá Reykn. fara hér með staðleysur þegar þeir halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt atvinnumálum Suðurnesja áhuga og hafi ekki staðið við sín fyrirheit. Sannleikurinn er sá að ríkisstjórnin hefur sýnt atvinnumálum Suðurnesjamanna mikinn áhuga. Hún hefur líka sýnt hann í verki. Eins og kom fram í máli hæstv. forsrh. hefur ríkisstjórnin staðið við þau fyrirheit sem Suðurnesjamönnum voru gefin. Íslenskir aðalverktakar munu verja 300 millj. kr. til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Sveitarfélögin munu leggja þar á móti 200 millj. kr. í sama skyni. Þessir aðilar munu hafa með sér samvinnu og samráð um þessar aðgerðir. Þetta er að sjálfsögðu í fullu samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. nóv. um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum en þar var sagt, með leyfi hæstv. forseta: ,,Varið skal 500 millj. kr. til aðgerða í atvinnumálum á Suðurnesjum í samstarfi sveitarfélega, Íslenskra aðalverktaka og annarra fyrirtækja.``
    Að sjálfsögðu er árangur af þessu starfi enn ekki farinn að skila sér í aukinni atvinnu. En menn merkja aukinn áhuga og trú á Suðurnesjum á nýsköpun í atvinnulífinu á svæðinu og aukna bjartsýni hjá forsvarsmönnum starfandi fyrirtækja þar.
    Hér koma að sjálfsögðu líka til álita þær almennu aðgerðir í þágu atvinnulífsins, lækkun skatta, horfur um lækkun vaxta og bætt rekstrarskilyrði almennt sem mun bæta hag fyrirtækjanna jafnt á Suðurnesjum sem annars staðar á landinu. Það er ástæða til að benda á að það sem hér skiptir máli er að undirbúa jarðveginn þannig að þúsund rósir blómstri í atvinnulífinu þar eins og annars staðar. Þær blómstra ekki af opinberu handafli einu saman.
    Ráðuneyti iðnaðar- og viðskiptamála hafa aðstoðað ýmsa athafnamenn á svæðinu við að undirbúa atvinnuskapandi aðgerðir á þessum sviðum. Af þeim málum er enn of snemmt að segja beinar fréttir. En þar eru víða góðir möguleikar til skjótrar atvinnuuppbyggingar sem liggja m.a. í samvinnu í fiskvinnslunni, sem liggja m.a. í máltíðaframleiðslu Flugleiða fyrir alþjóðaflugfélög, sem liggja m.a. í því að nýta aðstöðuna við flugvöllinn á margvíslegan annan hátt og skapa grundvöll fyrir ferðamannaiðnað á Suðurnesjum. Allt þetta verður meðal þess sem kemur til álita þegar 500 millj. verður varið.