Fjárframlag til atvinnumála á Suðurnesjum

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:49:27 (4936)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu atvinnuleysi á Suðurnesjum. Atvinnuleysi er þó mjög mikið um allt land og fer vaxandi. Skráning félmrn. er ekki marktæk og þarf að breyta um aðferðir til að sýna hið rétta í þessum málum hér á landi. Réttar tölur munu vera nálægt 9 þús. manns nú í janúar en ekki 6--7 þús. eins og skráningin segir til um.
    Hér er verið að herma upp á ríkisstjórnina þau loforð að styðja sérstaklega við Suðurnes í sambandi við atvinnuuppbyggingu. Þær 500 millj. kr. sem ríkisstjórnin lofaði í nóvember eru ekki enn komnar í ljós. Ríkisstjórnin talar að vísu um að 200 millj. kr. eigi að koma frá sveitarfélögum og 300 millj. kr. frá Íslenskum aðalverktökum. Hvernig ætlar hún að ráða því að þessar 300 millj. frá Aðalverktökum og 200 millj. kr. frá sveitarfélögunum fari sérstaklega í það sem ríkisstjórnin hafði hugsað sér að byggja upp atvinnulíf á Suðurnesjum með?
    Einnig er vitað að atvinnuleysi meðal kvenna er mjög mikið á Suðurnesjum. Íslenskir aðalverktakar eru áreiðanlega ekki að hugsa sérstaklega um atvinnusköpun fyrir konur. Þar er engin kona í stjórn svo ég viti til. Ég geri ráð fyrir að þeir hugsi frekar um að byggja upp atvinnu fyrir það fólk sem þeir hafa haft í vinnu hjá sér og það er að meiri hluta til karlar.
    Það er að sjálfsögðu gott að karlar á Suðurnesjum hafi atvinnu ekkert síður en konur en atvinnuleysi kvenna hefur verið mjög viðvarandi og enn meira heldur en karla. Og ég vil leggja áherslu á það að þetta er ekki það fyrsta sem þessi ríkisstjórn, sem þarna lofar sérstöku framlagi til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum, er að svíkja eða fara fram hjá að efna, vegna þess að hún hefur einnig lofað sjávarútvegsfyrirtækjunum að bæta þeim upp þá skerðingu sem þau hafa orðið fyrir og hún hefur ekki enn þann dag í dag staðið við þau loforð.