Námsráðgjöf og starfsfræðsla

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 10:32:09 (4942)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ber hér fram fsp. sem lögð var fram fyrr á þessu þingi af Einari Má Sigurðarsyni til menntmrh. um námsráðgjöf og starfsfræðslu. Fyrirspyrjandi sat hér á þinginu sem varaþingmaður Alþb. í Austurl. Fsp. er svohljóðandi:
  ,,1. Hvað eru mörg stöðugildi við námsráðgjöf og starfsfræðslu á núverandi skólaári:
    a. í grunnskólum,
    b. í framhaldsskólum?
    2. Hvað eru mörg stöðugildi við námsráðgjöf og starfsfræðslu á skólaárunum 1990--1991 og

1991--1992:
    a. í grunnskólum,
    b. í framhaldsskólum?
    3. Hvert er viðhorf ráðherra til tillagna nefndar um námsráðgjöf og starfsfræðslu frá 11. apríl 1991?``
    Hér er spurt um tölulegar upplýsingar sem og viðhorf til nefndarálits sem fylgdi bréfi frá stjórnskipaðri nefnd sem skilaði af sér 11. apríl 1991 allítarlegum tillögum um tilhögun námsgjafar og starfsfræðslu. Ég ætla ekki hér þegar ég mæli fyrir fsp. að fara út í þær tillögur í einstökum atriðum en ég vil aðeins benda á að það virðist mjög brýnt að efla þessa starfsemi í skólum landsins og ná tengslum við atvinnulíf í landinu. Það eru þær áherslur sem ég les út úr umræddu nefndaráliti sérstaklega og þetta á auðvitað alltaf við en alveg sérstaklega kannski við þær aðstæður sem nú ríkja í atvinnulífi landsmanna og þær áhyggjur sem uppi eru vegna aukins atvinnuleysis langt umfram það sem áður hefur þekkst hérlendis.