Námsráðgjöf og starfsfræðsla

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 10:37:38 (4944)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Úr þeim tölulegu upplýsingum sem fram koma les ég að lítið hafi verið aukið ef nokkuð við stöðugildi í náms- og starfsráðgjöf milli skólaára. Þau stöðugildi sem skilgreind eru sérstaklega falla undir námsráðgjöf og starfsfræðslu og ráðherra greinir í sambandi við 3. lið fsp. frá því að gæta þurfi aðhalds. Það er e.t.v. skýringin á því að ekki hefur verið aukið þarna við sem mun hafa verið ein af áherslunum í tillögum umræddrar stjórnskipaðrar nefndar. Þar var lagt til, svo ég nefni það, í tillögum þeirrar nefndar að umfang námsráðgjafar í skólum verði eitt stöðugildi námsráðgjafa á hverja 300 nemendur í framhaldsskóla og eitt á hverja 500 nemendur í grunnskóla og háskóla. Þessu markmiði verði náð á næstu 10 árum í framhalds- og háskólum en á næstu 15 árum í grunnskólum. Þess utan er lagt til að starfsráðgjöf utan skólakerfis verði komið á með samvinnu aðila vinnumarkaðar, menntakerfis og sveitarfélaga, svo fá atriði séu nefnd af tillögum umræddrar nefndar. Ég held að menn þurfi að líta á þessi mál með tilliti til framtíðar og þó að hart þyki á dalnum í fjárhagslegu tilliti hjá ríkissjóði, þá er þó eðlilega verið að knýja á um úrbætur vegna atvinnuleysis og ég held að þessi þáttur geti, til framtíðar litið, skipt mjög miklu máli og honum verði komið í viðunandi horf í skólakerfi landsins í samvinnu við aðila í atvinnulífinu. Þess vegna er minnt á þetta mál hér með þessari fsp. sem ég hef hér lagt fyrir en ég fagna því að það eru jákvæð viðhorf sem tjáð eru frá menntmrn. varðandi tillögur nefndarinnar eins og þær voru lagðar fram á sínum tíma.