Strandferðir

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:07:51 (4957)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þegar Skipaútgerð ríkisins var lögð niður hafði hún áætlun á 34 hafnir en ekki viðkomu að sjálfsögðu nema flutningar væru til viðkomandi hafna sem var upp og ofan á sumum stöðum. Eimskipafélag Íslands er nú með áætlun á 16 hafnir auk þess sem skip félagsins koma óreglulega inn á ýmsar aðrar hafnir og samið hefur verið við Jökla hf. um að annast siglingar til Raufarhafnar. Samskip er með áætlun á 26 hafnir. Hvorugt félagið hefur áætlun á eftirtaldar fimm hafnir sem áður voru á áætlun Ríkisskipa: Bíldudalur, Suðureyri, Borgarfjörður eystri, Bakkafjörður og Mjóifjörður. Raufarhöfn hefur þá sérstöðu, eins og hér kom fram, að Jöklar annast siglingar þangað einu sinni í mánuði að ég hygg, en hvorugt hinna skipafélaganna hefur þangað fasta áætlun.
    Spurt er hvort flutningskostnaður vöru hafi breyst til hækkunar eða lækkunar. Samkvæmt því sem hér stendur hefur Eimskipafélag Íslands ekki hækkað flutningagjaldskrá sína frá því að Skipaútgerð ríkisins var lögð niður. Þegar Samskip hófu auknar strandsiglingar í febrúar 1992 var gjaldskrá Ríkisskipa tekin óbreytt í notkun. Þess ber þó að geta að gjaldskráin er fyrst og fremst viðmiðunargjaldskrá. Afslættir og sértilboð eru algeng. 1. júlí breyttist gjaldskráin. Gjaldflokkum fækkaði nokkuð og verðið breyttist. Almenn hækkun varð 5% en ýmsir vöruflokkar, svo sem búslóðaflutningar og gámaflutningar, lækkuðu verulega. Í kjölfar gengisfellingar, vegna erlendis þurrleiguskips og olíuverðshækkana var gjaldskráin hækkuð 1. des. um 4%. Nokkrir vöruflokkar hækkuðu þó minna en aðrir ekki.

    Spurt er hvort gengið hafi verið frá kaupum Samskipa á ms. Esju og Heklu þegar leigutími rennur út 1. febr. nk. Það hefur ekki verið gert, enda hygg ég að ekki sé áhugi fyrir því hjá Samskipum að kaupa skipin.
    Ég vil að síðustu taka það fram að ég hef ásamt aðstoðarvegamálastjóra átt fundi með bæjarstjóra Akureyringa og ýmsum mönnum í athafnalífinu á Akureyri og jafnframt með forseta bæjarstjórnar Egilsstaða og oddvita Fellahrepps þar sem við höfum rætt um nauðsyn þess að treysta samgöngur milli Norður- og Austurlands. Það er nú í athugun hvort rétt sé að taka upp reglulegan snjómokstur milli Norður- og Austurlands í næstu viku.