Strandferðir

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:15:12 (4961)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ég verði að nýta mér þennan rétt af því að hæstv. samgrh. fór með rangt mál hvað varðar afstöðu mína til reksturs Skipaútgerðar ríkisins. Henti hann það sem ónefndur þingmaður hefur sagt um þann ágæta samgrh. að stundum talar hann hraðar en hann hugsar. Hæstv. samgrh. er fyllilega ljóst hver afstaða mín var til og með hvaða hætti ætti að halda áfram rekstri skipafélags eða stuðningi ríkisins við jöfnun á flutningskostnaði út á landsbyggðina til að tryggja að vörur kæmust til afskekktra staða.
    Samgönguleg einangrun Súgandafjarðar hefur auðvitað verið vegna veðurs. Þó að Vegagerðin geri það sem henni er kleift til þess að opna þar á milli þá hefur það einfaldlega ekki gengið. Því hefur það verið mjög bagalegt að skipafélögin halda ekki lengur uppi reglulegum siglingum til að flytja þangað varning sem fólk þarf að fá. Þó að Fagranesið hlaupi undir bagga með flutningi á vörum frá Ísafirði þá siglir Fagranesið ekki frá Reykjavík, virðulegi samgrh. Það breytir ekki því, sem var aðalatriðið í ræðu minni, að með þessari aðgerð hefur fólki á ákveðnum stöðum verið gert að borga sjálft það sem ríkið tók áður

þátt í að greiða. Það er nákvæmlega það sem var gert og ég vil að mönnum sé fyllilega ljóst að það er stefna Sjálfstfl.