Þilplötuverksmiðja

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:38:31 (4974)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að þetta er vænlegt verkefni þegar horft er til framtíðar. Ég vil hins vegar benda á að það hefur þegar tekist að finna mjög álitlegan samstarfsaðila í skosk-bandaríska fyrirtækinu sem ég nefndi áðan. Það er því eiginlega ekki vandinn. Vandinn er eingöngu sá, sem hvorki er á valdi íslenska ríkisins né þessa stóra fyrirtækis, að byggingarstarfsemi er í lægð á því markaðssvæði sem fyrirtækið starfar á. Það hefur m.a. leitt til þess að fyrirtækjum í framleiðslugreininni hefur fækkað. Á móti kemur það sem er undirstaðan undir þessu fyrirtæki, þ.e. auknar kröfur um eldþol byggingarefna, sérstaklega í innviðum stórra bygginga í flestum löndum sem gera miklar brunavarnakröfur. Í þessu liggur framtíðarvonin.
    Ég get fullvissað hv. fyrirspyrjanda um að við munum halda sambandinu við þetta fyrirtæki vakandi. Ég hef fulla trú á því að það muni þegar aðstæður leyfa hefjast handa.