Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:13:56 (4980)

     Kristín Einarsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Frú forseti. Þegar þessi tillaga var til umræðu í gær var mjög vel rökstutt til hvaða nefndar eðlilegt væri að vísa henni. Þá kom það sama fram hjá hæstv. umhvrh. og nú að það sé óeðlilegt að tillögunni sé vísað til umhvn. sem ég er alls ekki sammála. Hann kom hins vegar ekki með neina tillögu um þetta í gær og hefur þá væntanlega verið að skoða málið þennan sólarhring sem liðinn er frá því að við fjölluðum um tillöguna.
    Það kom fram hjá forseta þegar þetta var rætt að það væri ekki alveg ljóst hvert þessi tillaga ætti að fara. Ég tek ekki undir rökstuðning hæstv. umhvrh. að hún eigi frekar heima í allshn. en umhvn. og tel að tillögur sem hníga í þá átt að hún fari til umhvn. séu mjög vel rökstuddar. Mér finnst alveg furðuleg afskiptasemi umhvrh. af því hvert þessi tillaga á að fara. Raunar get ég ekki skilið það öðruvísi en þannig að hann treysti alls ekki umhvn. til að fjalla um málið. Það er mjög sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að umhvn. hefur verið að fjalla um málefni Mývatnssvæðisins. Þess vegna er langeðlilegast að tillagan fari til umhvn.
    Ég lýsi aftur furðu minni á því að umhvrh. skuli ekki telja umhvn. hæfa til að fjalla um þessa tillögu sem og aðrar tillögur sem hún hefur fjallað um. Það hefur, eins og hér hefur reyndar komið fram, verið mjög góð samstaða í þeirri nefnd. Það er kannski það sem fer í pirrurnar á hæstv. umhvrh.