Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:16:11 (4981)

     Tómas Ingi Olrich (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli manna var í umræðum um þá till. að þál. sem hér er til umræðu og atkvæðagreiðslu mikil samstaða um efni hennar sem er til þess að gera einfalt. Efni þáltill. er um atvinnuþróun í Mývatnssveit. En eins og öllum er kunnugt er þetta mjög viðkvæmt svæði og öll atvinnuuppbygging á svæðinu hlýtur að snerta náttúrverndarmál. Það liggur hins vegar nokkuð ljóst fyrir að samkvæmt þingsköpum er allshn. ætlað að fjalla um byggðamál og að sjálfsögðu er þetta að hluta til málefni sem flokkast undir byggðamál en að hluta til einnig málefni sem flokkast undir náttúruvernd.
    Eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh. var það hans hugmynd að þó hann teldi eðlilegt samkvæmt þingsköpum að vísa þessu máli til allshn. væri einnig eðlilegt að allshn. leitaði eftir umsögn umhvn. að svo miklu leyti sem þáltill. snertir þau mál sem þar eru til umfjöllunar. Ég get ekki annað séð en að málið geti gengið þennan gang á fullkomlega eðlilegan hátt þannig að þeir ágætu starfskraftar sem eru í umhvn. geti fengið að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti. Mér finnst satt best að segja að hér sé verið að gera nokkuð mikið mál úr formsatriðum og horft fram hjá því að það er eining um að tillagan sé af hinu góða og að hún muni ná eðlilegum framgangi eftir þingsköpum með þeirri leið sem hér hefur verið gerð tillaga um.