Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:21:02 (4983)

     Páll Pétursson (um atkvæðagreiðslu) :

    Frú forseti. Það er e.t.v. nokkuð skondið að menn skuli vera með vangaveltur yfir því hvert eigi að vísa þessu máli. Samkvæmt því sem segir í tillögugreininni og ef maður les greinargerðina er eðlileg tillaga fyrsta flm. að vísa málinu til umhvn. Ef menn vildu það ekki þá væri hugsanlegt að vista þessa tillögu í fjórum nefndum öðrum sýnist mér. Það er hugsanlegt að vista hana í landbn. vegna þess mannlífs og þeirra atvinnuhátta sem verið hafa í Mývatnssveit. Það er hugsanlegt að senda tillöguna til iðnn. Það er hugsanlegt að senda tillöguna til félmn. Þetta er sveitarfélagamál að öðrum þræði. Það er líka hugsanlegt að senda þetta mál til allshn. í þeirri veru að þarna sé um byggðamál að ræða. Ef hér væri um einhverja venjulega sveit að ræða fyndist mér kannski fótur fyrir því að gera einhverja af þessum tillögum. En mér finnst að það sem skeri úr í þessu tilfelli sé það að Mývatnssveit og Laxársvæðið eru undir sérstökum lögum af umhverfisástæðum og þess vegna finnst mér tillaga fyrsta flm. ákaflega eðlileg og ég mun styðja hana.