Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:30:49 (4987)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er greinilega í nokkrum vanda, en ég skil ræðu hans á þann veg að þar sem hann svaraði ekki spurningu minni hvort málið hefði verið rætt við hann sé staðreyndin sú að málið hafi ekki verið rætt við hann. Það er auðvitað merkilegur þáttur í þessu að ágreiningur um það hvert tillagan eigi að fara skuli ekki hafa verið rædd við formann umhvn. heldur stillir umhvrh. flokksbróður sínum upp frammi fyrir því í þingsalnum að gera tillögu um það að málið fari ekki til umhvn. án þess að ræða það við flokksbróður sinn, formann nefndarinnar, Gunnlaug Stefánsson. Hitt er svo skiljanleg flokkshollusta af þingmanninum að ganga ekki gegn ráðherranum í þingsalnum. Það skilja hugsa ég allir. En þingmaðurinn gerði okkur öllum ljóst með sinni ræðu að málið var ekki rætt við hann.
    Það er fordæmi sem ég tel að megi ekki fylgja framvegis að ef ágreiningur kemur upp í þinginu um meðferð mála þá sé það ekki rætt við formenn nefnda. Það kom m.a. fram fyrr í vetur, ef ég man rétt, að ágreiningur um annað mál hafði ekki verið ræddur við formann allshn. Ég held að ég muni það rétt varðandi þjóðaratkvæðagreiðslutillögu, ég er að rifja þetta upp hér í ræðustólnum --- hafi hv. 6. þm. Reykv. Sólveig Pétursdóttir lýst því yfir að málið hefði ekki verið rætt við hana.
    Hitt er líka athyglisvert að annar þingmaður Alþfl., Rannveig Guðmundsdóttir, áréttaði það að fyrr hefði verið fylgt þeirri venju að fara að tillögu flm. Í því tilviki var hún að tala um hæstv. félmrh. (Gripið fram í.) Já, fara að tillögu flm. Það kom alveg greinilega fram að hún var að vísa til þess fordæmis að komið hefði upp ágreiningur um hvort vísa ætti málinu til menntmn. Flm., félmrh., hefði lagt til félmn. og niðurstaða þingsins hefði verið að fara að vilja flm.
    Framganga þessara tveggja þingmanna Alþfl. er því náttúrlega eins skýr ábending til umhvrh. og frekast getur verið um að þeir séu ekki sáttir við framgöngu ráðherrans í málinu.
    Ég bar líka fram fyrirspurn til umhvrh. hvort ekki væri rétt að lögin um náttúruvernd á Mývatnssvæðinu og lögin um Mývatnssvæðið heyrðu undir umhvrh. þannig að engin atvinnuþróun getur orðið á því svæði nema á grundvelli þeirra laga. Það er eina svæðið á landinu, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, þar sem gilda sérstök náttúruverndarlög um atvinnuþróun sem heyra undir umhvrh.
    Verði þetta ekki leiðrétt hér að lögin heyri undir umhvrh. þá nær ekki nokkurri átt að vera að vísa málinu eitthvað annað. Það er auðvitað mjög merkilegt ef umhvrh. (Forseti hringir.) --- Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, ( Forseti: Tíminn er búinn.) --- vill ekki koma hér upp til þess að staðfesta að lögin heyra undir hann.