Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:39:13 (4990)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Um það getur ekki verið ágreiningur að það hlýtur að vera efni máls í öllum tilvikum sem ræður því til hvaða vinnunefndar þingsins málin fara. Hér er þetta svo skýrt sem verða má. Hér er um að ræða úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit, að teknu tilliti til náttúruverndar, eins og hlýtur að vera gert í öllum slíkum málum. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það hvert er meginefni þessa máls eins og hefur komið mjög rækilega fram, t.d. hjá formanni umhvn.
    Vegna þeirra áhyggna sem formaður Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hefur af því hvaða umfjöllun þetta mál hefur hlotið þá er auðvitað sjálfsagt að greina frá því að þetta var rætt á þingflokksfundi Alþfl. í gær og þá áttum við samtal um þetta, ég og hv. formaður umhvn. Það er því auðvitað fjarstæða sem hann er að láta liggja að og halda fram að þetta mál hafi ekki verið rætt með eðlilegum hætti. Það eru auðvitað eins og hver önnur ósannindi og dylgjur af hálfu þess hv. þm.
    Hann beindi til mín þeirri fyrirspurn hvort lögin um verndun þessa svæðis, Laxár og Mývatns, heyrðu undir umhvrn. Þau gera það. Þau eru almenn rammalög um friðun og verndun þessa svæðis. Eins og ég sagði þegar ég tók til máls fyrr í þessari umræðu er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að umhvn. fái þetta mál til athugunar og umsagnar. Eins og tillagan er orðuð hefði hv. 1. flm. átt að orða efniskafla sinnar tillögu á annan veg ef hann vildi að þetta færi til umvhn. Eftir orðanna hljóðan og efni máls í tillögugreininni sjálfri þá er þetta fyrst og fremst úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit.