Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:49:29 (4995)


     Kristín Einarsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Frú forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað að þetta er orðin alllöng umræða og mjög furðuleg og var auðvitað algjör óþarfi að byrja hana eins og hæstv. umhvrh. gerði þó. Það var kannski fyrst og fremst vegna orða hv. 3. þm. Reykv. að ég kvaddi mér hljóðs. Hann sagði að honum fyndist svo augljóst að þetta ætti heima í allshn. þar sem þetta væri byggðamál, atvinnumál í einhverri sveit úti á landi. Þá velti ég því fyrir mér hvort öll byggðamál eigi heima í allshn. Eiga byggðamál í Reykjavík heima í allshn. eða þarf að fara til Hafnarfjarðar til þess að þau eigi heima í allshn., Keflavíkur, Sandgerðis eða suður í Garð? Hvert þarf maður að fara til þess að þetta eigi heima í allshn.? Er það svo augljóst á tillögunni að þetta sé byggðamál? ( GunnS: Hvaða byggðamál í Reykjavík koma til greina?) Ég sagði atvinnumál í Reykjavík ef þingmaðurinn hefur ekki heyrt.
    Ég er að spyrja að því hvort öll atvinnumál eigi heima í allshn. ef þingmaðurinn hefur ekki hlustað á það sem ég sagði. Vegna þess að mér finnst mjög sérkennilegt að það skuli vera svo augljóst samkvæmt þingsköpum að þessi tillaga eigi heima í allshn. Það er ekki alveg augljóst hvert hún ætti að fara en það hafa verið færð rök fyrir því að hún fari í umhvn. og þau rök tel ég vera fullgild. Hin rökin finnst mér ekki fullgild og ég tek undir það sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði. Það er ekki alveg augljóst hvert hún ætti að fara. Hún gæti farið í fleiri nefndir. En ég held að það sé rétt að ganga til atkvæða um þessa tillögu og hætta þessu þjarki, en það er greinilegt að þetta er stórpólitískt flokksmál bæði hjá Sjálfstfl. og Alþfl.