Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:51:39 (4996)


     Páll Pétursson (um atkvæðagreiðslu) :
    Frú forseti. Það er nú leiðinlegt að hæstv. umhvrh. skuli standa fyrir þessari löngu umræðu. En mér finnst að það þurfi að bæta aðeins hér við. Tillgr. hljóðar nefnilega svona, frú forseti:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit``, og takið þið nú eftir, ,,er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu. Að úttektinni verði unnið samhliða rannsóknum á áhrifum kísilgúrnáms úr Mývatni á lífríki svæðisins og fyrstu niðurstöðum skilað og þær kynntar Alþingi fyrir febrúarlok 1993.``
    Í 1. mgr. 23. gr. þingskapa segir svo:
    ,,Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um

það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.``
    Lög um Laxár- og Mývatnssvæðið heyra undir umhvrn. Náttúruvernd á svæðinu heyrir undir umhvrn. Rannsóknir á áhrifum kísilgúrnámsins á lífríki svæðisins heyra undir umhvrn. og umhvrn. kemst ekkert hjá því að hafa þetta undir sér því að það er búið að setja hér upp með miklum þrautum umhvrn. Mér finnst að þessar umræður hafi skýrt það enn frekar að það var rétt tillaga hjá flm. að óska eftir því að málinu verði vísað til umhvn. Umhvn. hefur það að sjálfsögðu á valdi sínu að vísa málinu til annarra nefnda sem ég taldi hér upp áðan, allshn., landbn., iðnn., félmn. eða hvað annað sem henni þykir þurfa, en mér sýnist að þetta mál eigi tvímælalaust að vera á forræði umhvn.