Fjarvera heilbrigðisráðherra

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 14:17:29 (5002)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það væri tímabært að þessum hv. þm. sem talaði hér áðan væri ekki

aðeins leiðbeint um tímareglur, heldur líka þær reglur sem gilda í almennum samskiptum þingmanna hér á þessum vinnustað. Það er stundum þannig þegar menn eru að leika hnefaleika, þá gerist það að öðrum leikaranum verður það á að slá undir beltisstað og þá er það ævinlega hlutverk dómarans að fleygja viðkomandi út úr hringnum. Engar slíkar reglur gilda hér í þessum sölum. Ef þær giltu, þá hygg ég að einhverju slíku hefði nú verið beitt gagnvart hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni því ummæli hans voru vægast sagt fyrir neðan beltisstað.
    Virðulegi forseti. Margt má segja um núv. hæstv. heilbrrh. En eitt er ekki hægt að bera honum á brýn og það er kjarkleysi eða hugleysi. Ef einhver einn maður hefur sýnt kjark í sínum störfum, þá er það hæstv. heilbrrh. Það er með ólíkindum að formaður stjórnarandstöðuflokks komi hér og haldi því fram að hæstv. heilbrrh. hafi ekki kjark til þess að mæta og mæla fyrir sínum málum. Þetta er með ólíkindum. Ég vil líka, virðulegi forseti, spyrja hvort ekki sé rétt munað hjá mér að það bréf sem hér var lesið upp frá hæstv. heilbrrh. í gær hafi einmitt verið þess eðlis að þar var greint frá því að sökum veikinda gæti hæstv. heilbrrh. ekki sinnt reglulegri þingsetu. Er þetta rétt munað hjá mér? ( Forseti: Nú verður forseti að lesa bréfið til að geta staðfest það.) Ég man ekki betur en það hafi einmitt verið orðað svona til þess að hv. þm. ættu kost á því ef þeir teldu þess þörf að eiga við hann orðastað. En ég held að engum manni hér inni nema e.t.v. hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni dyljist þær ástæður sem liggja að baki því að heilbrrh. hefur kosið, eftir að hafa ráðfært sig við formann þingflokks Alþfl., að taka inn varamann. Og ég verð að segja það enn og aftur að mér finnst þetta með ólíkindum.
    Ég vil líka í tilefni af því að hv. þm. vísar hér í auglýsingar í Alþýðublaðinu geta þess og láta það koma hér fram vegna þess að þingheimur hefur vafalaust áhuga á því að vita um gengi fundaherferðar Alþfl. að þegar hún var skipulögð upphaflega, þá átti Sighvatur Björgvinsson að vera aðalmaðurinn í því. Hann átti að vera á fundum úti um allt land. En sökum þess slyss sem hann varð fyrir, þá var tekið tillit til þess og hann var tekinn út af öllum fundunum. Hann hefur farið á tvo fundi, á annan fundinn til þess að tala sem aðalgestur og hinn fundinn sem gestur til þess að svara fyrirspurnum. Og ég hygg að ef eftir því verður leitað að ráðherrann komi hér til að gera grein fyrir sínum málum og sínum aðgerðum, þá muni hann gera það. En það er alveg með ólíkindum að nokkrum manni komi til hugar að bera þessum ráðherra sérstaklega á brýn kjarkleysi því það er fyrir neðan beltisstað.