Fjarvera heilbrigðisráðherra

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 14:20:15 (5003)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það hryggir okkur að sjálfsögðu að hæstv. heilbrrh. skyldi detta og brjóta á sér handlegginn nú um daginn og það er út af fyrir sig e.t.v. næg ástæða til þess að hann sé fjarverandi. Hann hefur tekið varamann til þess að sitja hér á Alþingi í sinn stað og ekki nema gott um það að segja. Að vísu er nú varamaðurinn ekki mættur á þessum fundi en hann er sjálfsagt forfallaður líka. Ég vona að hæstv. ráðherra batni sinn sjúkleiki, hann grói sára sinna eða beinbrota sem fyrst og geti komið hér til starfa aftur. Mér finnst það hins vegar skipta nokkru máli ef ráðherrann er nú það frískur að hann vinnur fullan vinnudag og heldur meira að segja fundi fram á nætur, vaknar fyrir allar aldir til þess að flytja fyrirlestra í útvarpið áður en hann fer á skrifstofuna þar sem hann sinnir embættisstörfum væntanlega allan daginn og er svo á fundum á nóttinni en hunsar Alþingi á sama tíma og mætir ekki þar til þingfunda eða gegnir þingskyldum sínum, þá fyndist mér að hann eigi ekki að taka laun sem þingmaður þann tíma sem varamaðurinn situr inni. Ef maðurinn er sjúkur, þá á hann auðvitað rétt á sínum launum eins og fólk í veikindaforföllum, en ef hann er heill og getur unnið ekki bara einfaldan vinnudag heldur tvöfaldan vinnudag og hunsar samt þingskyldur sínar, þá tel ég að honum beri ekki laun sem þingmanni. Nú veit ég að hæstv. heilbrrh. er ákaflega á móti allri spilling og ég tel það eiginlega víst og þarf ekki að spyrja að því að hann muni ekki taka á móti launum fyrir þennan hálfa mánuð sem hv. þm. Pétur Sigurðsson situr fyrir hann hér á þingi.