Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 14:55:49 (5012)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um flutning ríkisstofnana. Fyrsti flm. er hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
    Ég ætla ekki að ræða það efnislega hvort rétt sé að standa að flutningi ríkisstofnana út á land með þeim hætti sem hér er lagt til, að það verði fyrst bundið í lögum að svo skuli gera og síðan beðið eftir hinum raunverulega flutningi. Eins og fram kom í máli hv. 18. þm. Reykv., Kristínar Ástgeirsdóttur, þá starfar núna mjög ötullega nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, sem þó er skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi, að því að framfylgja einu mikilvægasta ákvæði stjórnarsáttmálans um að flytja ríkisstofnanir og opinbera þjónustu út á land eins og hagkvæmt þykir.
    Í hvítbókinni segir m.a.: ,,Ríkisstjórnin mun á kjörtímabilinu beita sér fyrir því að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem hagkvæmt þykir.``
    Hér hefur verið mörkuð stefna. Hér eru sögð orð í stjórnarsáttmála sem enginn getur misskilið að það er vilji og stefna ríkisstjórnarinnar að flytja opinbera þjónustu og opinberar stofnanir út á landsbyggðina eins og hagkvæmt þykir.
    Það hefur ekki komið fram ágreiningur í þinginu um þessa stefnu. Hv. 16. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, efaðist um að þessi stefna væri rétt í andsvari áðan. Ég minnist þess ekki þegar við

unnum að því að móta stjórnarsáttmálann að um þetta ákvæði væri einhver fyrirvari eða ágreiningur heldur var um þetta alger samstaða.
    Í ljósi þessarar samstöðu starfar nú þessi flutningsnefnd undir forustu Þorvaldar Garðars Kristjánssonar og hefur starfað mjög rösklega síðustu mánuði og undirbýr að skila sínu fyrsta áliti innan skamms. Ég segi innan nokkurra vikna ef fram heldur sem horfir.
    Það er ekki ástæða til þess á þessu stigi fyrir nefndarmenn að ræða efnislega hvað þar hefur borið á góma eða hverjar niðurstöður muni væntanlega verða. Það bíður allt síns tíma og kemur í ljós. En ég er þess fullviss að árangurinn af starfi nefndarinnar á eftir að verða mikill og skila sér í raunhæfum og hagkvæmum flutningi opinberrar þjónustu og opinberra stofnana út á land.
    Það er kannski ekki ástæða til í þessum umræðum að bera fram rök fyrir því að það sé hagkvæmt og réttmætt að flytja opinbera þjónustu og stofnanir út á land. Það er alkunna að hin opinbera þjónusta í Reykjavík hefur vaxið mikið. Ríkið er stærsti vinnuveitandi í Reykjavík og sú stefna sem þar hefur ráðið ríkjum hefur m.a. stuðlað að fólksflóttanum af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Í raun og veru hefur sú stefna að setja niður opinberar stofnanir og opinbera þjónustu í Reykjavík verið eins og lögmál --- vonandi hafa stjórnmálamenn ríkisstjórnarflokka undanfarinna áratuga gert þetta óafvitandi, en þetta hefur verið pólitísk stefnumótun eigi að síður sem sést á því að hin opinbera þjónusta hefur vaxið allt að helming á síðasta áratug og störfum fjölgað um sjö eða átta á móti þeim þremur sem gilda um landsbyggðina.
    Auðvitað er það byggðastefna í sjálfu sér að standa þannig að málum. Fyrir þeirri byggðastefnu hefur Framsfl. haft forustu. Það er deginum ljósara. Hann hefur borið ábyrgð umfram aðra stjórnmálaflokka á byggðastefnunni undanfarna tvo áratugi og það er staðfest í greinargerðinni sem fylgir frv. Ég fagna þeirri sjálfsgagnrýni sem þar kemur fram hjá hv. 1. flm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni að sú stefna sem ríkt hefur allt fram til þessa hafi verið handahófskennd og nú þurfi að endurskoða hlutina. Það segir nefnilega orðrétt í greinargerðinni:
    ,,Í framhaldi af því hefur komið upp umræða um að æskilegt geti talist að flytja ríkisstofnanir út á land. Sú umræða hefur verið handahófskennd og æskileg markmið hefur skort.``
    Ég held að það þurfi ekki fleiri vitnanna við. Tæpast verður hægt að orða betur skipbrot byggðastefnu síðustu áratuga hvað varðar þetta mikilvæga atriði. Sú stefna hefur verið handahófskennd og síðast en ekki síst hefur æskileg markmið skort. Ég fagna þessum sinnaskiptum. Ég treysti því að hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson tali hér fyrir hönd Framsfl. Í raun og veru er hann með þessari greinargerð að marka ákveðin þáttaskil. Taka undir þá stefnu sem núv. ríkisstjórn hefur markað svo áþreifanlega. ( Gripið fram í: Með gjörðum sínum.) Markað svo áþreifanlega í sáttmála sínum og gjörðum sínum. Um það getur fulltrúi Framsfl. í nefndinni án efa vitnað um. Hún er á forsetastóli, hv. þm., en við vinnum saman að því að reyna einmitt að koma þessu máli fram og komast út úr hinu handahófskennda og marklausa ástandi. Ég vil geta þess sérstaklega hér að í nefndinni hefur verið mjög gott samstarf. Þar hefur verið unnið saman af heilindum. Þar hefur verið unnið af trúnaði og trausti og allir lagt sig fram um það eins og þeir frekast mega að ná fram árangri í þessu máli. Eigi að síður verður að skoða þetta mál í ljósi hinnar pólitísku sögu.
    Það hefur einnig komið fram í umræðu um þessi mál að e.t.v. er þetta fyrsta ríkisstjórn síðan 1975 sem gerir alvöru í því að koma þessu máli fram. Gerir alvarlega tilraun til þess að hér megi snúa við. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., lagði einmitt ásamt nokkrum öðrum góðum og traustum mönnum fram mikið starf á þessum vettvangi í nefnd er skilaði áliti 1975. Eftir þá nefnd liggja mjög mikilvægar upplýsingar sem koma líka að gagni núna. Núverandi nefnd hefur einmitt haft til skoðunar skýrslu þáverandi nefndar og niðurstöðu hennar. Allt það starf var til fyrirmyndar. En það sem skorti, og nú þurfum við að varast vítin, var að láta verkin tala í kjölfar orðanna.
    Ég fagna því enn þessu skrefi sem stigið er hér. Hv. flm. eru með þessu frv. að reyna að leggja til leið svo verkin megi tala í stað orðanna. Þess vegna vil ég ekki útiloka né dæma þessa leið vonda né góða. Hún þarf að skoðast. En þessi leið varpar ekki skugga á þá aðferð sem allir stjórnmálaflokkar hafa sameinast um núna í nefndarstarfinu um það reyna að skila einhverjum stofnunum, ekki endilega mörgum en einhverjum stofnunum í fyrsta áfanga, út á landsbyggðina.
    Það eru til nokkrar leiðir í því hvernig að þessu megi standa. Það má líka nefna í þessu sambandi að mikilvægt er að skoða hvort hægt sé að fela sveitarfélögum aukin opinber verkefni sem opinberar stofnanir fara með núna. Kannski stofnanir sem einvörðungu eru staðsettar í Reykjavík. Þetta gildir t.d. á sviði stjórnunar heilbrigðismála. Þetta gildir t.d. á sviði menntamála o.s.frv. Við þurfum einnig að skoða hvernig ríkisstofnanir geta í auknum mæli dregið úr starfsemi sinni og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu en skilað henni með útibúum eða umboðsskrifstofum í vaxandi mæli á landsbyggðinni og fært þjónustuna nær fólkinu sem þiggur hana. Það er einn þáttur sem verður einnig að skoða og er í athugun.
    Svo er það þriðja leiðin að flytja heilu stofnunina. Ef okkur er ekki kleift núna að staðsetja ríkisstofnun á landsbyggðinni, þá á ég fyrst og fremst við einstæða ríkisstofnun sem byggir samband sitt í gegnum fjarskipti í ljósi allrar þeirrar tækni og þeirra möguleika sem við höfum, þá eru ekki miklar líkur á því að við getum það einhvern tímann seinna. Ég hef lagt þann mælikvarða til grundvallar í fyrsta áfanga að það ætti að einbeita sér að stofnunum sem fyrst fremst eru eins og við getum sagt, óháðar staðsetningu og geta verið staðsettar hvar sem er miðað við þá þjónustu og þá starfsemi sem fram fer innan

stofnunarinnar.
    Það má einnig benda á í þessu sambandi að þegar stofnun er tekin upp með rótum af einum stað og flutt yfir á annað landsvæði gefst gott ráðrúm og tækifæri til að endurskipuleggja starfshætti slíkrar stofnunar. Auðvitað verðum við að taka tillit til allra mannlegra aðstæðna sem koma upp í slíku dæmi og slíkur flutningur gerist ekki á einni nóttu. Þetta þarf töluverðan aðdraganda og aðlögunartíma. Hér verður að fara fram af varfærni og nærgætni og taka tillit til allra þeirra viðkvæmu aðstæðna sem hljóta að koma upp sérstaklega með tilliti til aðstæðna fólks. Við erum að tala hér um atvinnu fólks líka.
    Ég vil ítreka að það gefst gott tækifæri til að endurskipuleggja starfshættina og starfsemina á sama hátt og t.d. þegar bankastjórar Seðlabankans láta af störfum. Þá gefst gott tækifæri til að endurskipuleggja skipulag og starfshætti Seðlabankans, t.d. núna. Fyrst að tveir bankastjórar Seðlabankans ætla að hætta störfum á yfirstandandi ári mætti draga úr yfirbyggingu og stjórnunarkostnaði og bákni Seðlabankans með því að fækka þeim í einn. Nú ætti ríkisstjórnin einmitt að grípa tækifærið og fækka í yfirstjórn Seðlabankans úr þremur í einn.
    Þetta nefni ég sem dæmi um það hvernig hægt er að nota breyttar aðstæður til að skipa stofnunum upp á nýtt. Það er þörf á því. Ég er ekki að leggja það til hér í þessari ræðu að það sé ástæða til þess að flytja Seðlabankann út á land. En Seðlabankinn er einmitt dæmi um stofnun sem gæti verið hvar sem er á landinu. ( Gripið fram í: Já, alveg rétt.) Þangað þarf enginn maður að koma nema starfsfólkið sem starfar þar. Í raun og veru er Seðlabankinn ekki mikið meira en ein stór fjarskiptamiðstöð ( Gripið fram í: Það hafa ekki allir seðla sem gilda þar.) sem staðsett er á Arnarhól. Og þessi fjarskiptamiðstöð, sem færi vel undir stjórn eins manns, getur verið staðsett hvar sem er á landinu.
    Virðulegi forseti. Þessi málefni um flutning ríkisstofnana út á land hafa oft komið til umræðu hér í þinginu nú síðustu ár. Hér er enn eitt skrefið stigið til þess að efla þá umræðu og ég vona að þetta skref sem hv. flm. stíga nú sé enn eitt lóð á vogarskálarnar til þess að verk megi fara að tala í stað orða. Ég lít svo á að sú viðleitni liggi að baki þessum frumvarpsflutningi og er það vel og því þakka ég flm. fyrir þá viðleitni.