Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 15:11:55 (5013)

     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl. sagði að núv. ríkisstjórn ætlaði í kjölfar síns stjórnarsáttmála að láta verkin tala í þessum málum og núv. hæstv. ríkisstjórn hefur látið verkin tala. Hún hefur gert það með því að þegar hafa verið settar á fót nýjar stofnanir eins og Fiskistofa, þá er hún staðsett í Reykjavík. Hæstv. ríkisstjórn ætlaði að gera það með því að þegar þurfti að skera niður til viðbótar í heilbrigðiskerfinu að leggja niður Kristnesspítala, spítala úti á landi. Hæstv. ríkisstjórn hefur gert það þannig að hún hefur afturkallað ákvörðun fyrrv. hæstv. sjútvrh. um að flytja sjóvinnubátinn Mími og gera hann út frá Akureyri. Hann fórst að vísu en það hefur ekkert verið gert í því að nota tryggingarféð til að endurnýja bátinn og standa við þá ákvörðun.
    Hæstv. núv. ríkisstjórn hefur látið verkin tala á þann hátt að þegar þurfti að skera niður í áfengismeðferð var lagt til að loka stofnunum í Gunnarsholti og Staðarfelli í Dölum. Hæstv. núv. ríkisstjórn hefur látið verkin tala á þann hátt að þegar skattkerfisbreytingar hafa átt sér stað, þá er það gert á þann hátt að það er lagður virðisaukaskattur á húshitun sem leggst miklu þyngra á landsbyggðina en aðra landshluta og með því líka að leggja virðisaukaskatt á ferðalög innan lands sem mundi vinna á móti allri viðleitni til flutnings ríkisstofnana vegna þess að það eykur allan kostnað við flutninga innan lands um 14%. Hv. þm., þetta eru verk núv. hæstv. ríkisstjórnar þegar kemur að því að það sést á borði hvað hún meinar en ekki bara í orði það sem stendur í stjórnarsáttmála.
    Þetta vil ég nú biðja hv. þm. að hafa í huga þegar hann flytur hér sínar hjartnæmu ræður um að nú eigi að fara að láta verkin tala.