Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 15:14:39 (5014)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. flm. þessa frv., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, lét svo ummælt hér í upphafi síns máls að það þjónaði kannski litlum tilgangi að fara að hefja hér efnisumræður á þinginu um frv. af þessu tagi. Hann vitnaði í það að líklegast yrði áhugaleysi þingmanna og ráðherra á málinu slíkt að það færi fyrir lítið að hefja þessa umræðu.
    Ég er ósammála þingmanninum um það að ekki sé rétt að ræða þetta mál ítarlega vegna þess að hér er á ferðinni mjög mikið og stórt mál sem á sér mjög langa sögu og skiptir mjög miklu máli í okkar þjóðfélagi og okkar stjórnkerfi hvort það er framkvæmt eða ekki. En hitt er svo alveg rétt að það er dálítið sérkennilegt að jafnmargir þingmenn skuli vera jafnáhugalitlir um þetta mál eins og raun ber vitni og enginn ráðherra skuli sjá ástæðu til þess að vera viðstaddur þessa umræður.

    Það er síðan enn sérkennilegra að mikill meiri hluti þeirra þingmanna sem hér eru þó í salnum eru þingmenn Reykjavíkur- og Reykjanesskjördæmis. ( JGS: Það er hagsmunagæsla.) Nei, það er ekki nein hagsmunagæsla, hv. þm., og ég er ekkert að ræða þetta mál í neinum hótfyndnistón. Það er auðvitað dálítið sérkennilegt að það eru eiginlega ekki nema þrír eða fjórir landsbyggðarþingmenn viðstaddir þessa umræðu. En hins vegar eru hér einir 10 þingmenn Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmis, 11 þó með þeim sem hér gekk í salinn.
    Ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta frv. vegna þess að ég tel málið mikilvægt en ég tel frv. að ýmsu leyti óraunhæft og ætla að færa fyrir því rök þó að ég þakki flm. fyrir það að flytja málið inn á þingið. En síðan ætla ég einnig að víkja nokkrum orðum að niðurlagi ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar sem talaði áðan og því sem hann sagði um stjórnkerfi Seðlabankans en þar lét þingmaðurinn í ljósi mjög athyglisverð sjónarmið sem ég er sammála en ganga hins vegar þvert á það frv. sem hæstv. viðskrh. ætlar að biðja þingið að samþykkja.
    Það er rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að á árunum 1971--1975 fór ég með formennsku í nefnd sem sett var upp af ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem tók við völdum 1971 og þessari nefnd var ætlað að gera tillögur um flutning ríkisstofnana. Ég þakka þau lofsamlegu ummæli sem komu fram hjá hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni um störf þessarar nefndar því að satt að segja er það þannig að við lögðum í þetta mál gífurlega vinnu. Við kölluðum til fundar forsvarsmenn allra opinberra stofnana. Við gerðum ítarlega athugun á stjórnkerfi stofnananna. Við ræddum lengi og ítarlega aðferðir við annars vegar að flytja stofnunina í heild sinni og hins vegar við að brjóta starfsemina upp í útibúakerfi eða deildakerfi og tengja þannig hluta af hinni opinberu starfsemi úti um land. Við skiluðum síðan til forsrn. skýrslu sem lögð var fram á þingi 1975. Mér er það minnisstætt að þegar skýrslan, sem var stór og mikil, var lögð fram hér á þinginu, þá höfðu menn málið að gamanmáli í þinginu, gerðu góðlátlegt grín að því ýmsir hvað skýrslan var mikil að vöxtum. Við tókum þetta verkefni hins vegar mjög alvarlega. Við vildum ekki gefa okkur fyrir fram að nein starfsemi væri sjálfgefin hér í höfuðborginni og við gerðum meira. Við kynntum okkur mjög rækilega með hvaða hætti væri farið með þessi mál, t.d. í Svíþjóð og Bretlandi svo að ég nefni nokkur lönd. Og á grundvelli þessarar vinnu sem satt að segja tók mjög mikinn tíma hjá mér sem formanni nefndarinnar --- ég gerði það einu sinni að gamni mínu að reyna að tína saman hvað ég hefði varið miklum tíma í þetta starf og það var einhvers staðar á bilinu 10--12 mánuðir á þessu árabili samtals sem ég hafði varið í það --- tel mig þess vegna kannski tala hér af nokkurri reynslu við að fást við þetta viðfangsefni. Við skiluðum síðan eins og þetta nál. ber með sér mjög ítarlegum tillögum þar sem gert var ráð fyrir því að þó nokkuð mikill fjöldi ríkisstofnana yrði fluttur frá Reykjavík út á land.
    Í öðru lagi voru gerðar tillögur um það að stofna útibú og flytja deildir hjá öðrum stofnunum. Ef þessar tillögur hefðu náð fram að ganga, þá hefðu þær haft í för með sér mjög umfangsmikinn tilflutning á starfsemi í þágu landsbyggðarinnar og byggðajafnvægis. Ein meginástæðan fyrir því að þessi tillöguflutningur var nokkuð raunhæfur fyrir 20 árum síðan var að þá átti enn eftir að byggja varanlega yfir margar af þessum ríkisstofnunum og það var þess vegna hægt að tengja saman annars vegar að finna þeim samastað og hins vegar að leysa húsnæðisvanda þessara stofnana. Nú eru hins vegar liðin um það bil 20 ár. Og það sem gerst hefur á þessum tíma er að margar þessara stofnana hafa eignast varanlegt húsnæði og gífurlegum fjármunum hefur verið varið til þess að reisa byggingar eða kaupa í þágu margra þessara stofnana svo að það verður auðvitað að horfast í augu við það af fullu raunsæi að í dag er það miklu meira verk og dýrara að fara í flutning ríkisstofnana, ég tala nú ekki um jafnveigamikinn og um getur í 2. gr. þessa frv., en var fyrir 20 árum síðan.
    En hver voru örlög þessarar tillögugerðar? Það er mjög fróðlegt að rifja það hér upp og ég ætla að gera það þingmönnum til fróðleiks vegna þess að ég ætla að flm. séu að flytja þetta frv. í málefnalegri alvöru en ekki bara í einhverju áróðursskyni.
    Þegar við skiluðum þessu ítarlega áliti, þá hafði tekið við völdum ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. og þótt í nefndinni, sem vann að þessu verki, væru sjálfstæðismenn sem og framsóknarmenn, þá voru líka menn ýmissa annarra flokka. Í þessari nefnd sat m.a. hæstv. núv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. skólameistari á Ísafirði. Og þótt sá maður sem sett hafði upp þessa nefnd sem forsrh. væri áfram í ríkisstjórn, þá var það engu að síður niðurstaðan að í ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. sem sat 1974--1978 reyndist afar lítill áhugi svo að vægt sé til orða tekið á að framkvæma nokkuð af þessum tillögum, ekki eina einustu. Innan þeirrar ríkisstjórnar var skipuð sérstök vinnunefnd þingmanna og mig minnir, að núv. ritstjóri DV, þáv. þm. Ellert B. Schram hafi verið einn þeirra manna sem falið var að meta þessar tillögur. Niðurstaðan varð sú að á vettvangi ríkisstjórnarinnar og þingflokka Framsfl. og Sjálfstfl. í þessari ríkisstjórn skorti greinilega vilja til þess að hrinda þessu í framkvæmd. Engri tillögu var hrint í framkvæmd. Þó er þarna um að ræða ítarlegustu yfirferð yfir íslenska stjórnkerfið í ljósi möguleika á að flytja starfsemi ríkisins til annarra landshluta.
    Nú var það ekki þannig eins og ég sagði áðan að sú nefnd sem ég veitti formennsku hafi verið flokkspólitísk í eðli sínu. Í henni sátu menn úr öllum stjórnmálaflokkum, menn sem gegndu forustustörfum hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, m.a. þáv. framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga sem nú er látinn sat í nefndinni. Og maður sem hafði sinnt mjög sveitarstjórnarmálum á vettvangi Sjálfstfl. var einnig í þessari nefnd og Framsfl. var að sjálfsögðu lengi búinn að hafa þetta á sinni stefnuskrá. Hv. þáv. þm.

Helgi Seljan kaus síðan að flytja hér á Alþingi nokkrum sinnum og ég gerðist síðan meðflm. hans eftir að ég tók sæti á Alþingi 1978 um að flytja hér á þingi nokkrum sinnum frv. um flutningsráð ríkisstofnana. Þessari stofnun sem átti nú ekki að hafa neina starfsmenn en átti að vera nefnd, ráð, var ætlað að meta í hvert sinn sem viðbót yrði við hið opinbera kerfi hvort ekki væri hægt að finna þeirri viðbót heimkynni annars staðar en hér á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það að þetta frv. væri flutt hér þing eftir þing, þá fékkst ekki stuðningur á Alþingi fyrir þessari tilraun.
    Á þeim 20 árum sem liðin eru hefur auðvitað orðið margvísleg þróun í stjórnkerfi landsins og öðrum þáttum hinnar opinberu starfsemi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv. Mig minnir t.d. að það sé rétt með farið að ein af tillögum nefndarinnar sem við skiluðum 1975 hafi verið að flytja Kennaraháskóla Íslands til Akureyrar og gera að miðstöð kennaramenntunar á háskólastigi og almenningsstigi þannig úr garði að hún gæti haft varanleg heimkynni á Akureyri. Ég er t.d. sannfærður um að það hefði verið miklu vænlegra skref, bæði fyrir Akureyri og byggðamál á Norðurlandi og menntakerfið í landinu, að flytja tiltölulega heilsteyptan þátt menntakerfisins eins og kennaramenntunina í heilu lagi til Akureyrar en reyna að búa til háskóla á Akureyri sem þrátt fyrir að ákveðin verkaskipting ríki þar milli hans og Háskóla Íslands er engu að síður skilgreindur á þann hátt að mörk hans eru ekki alveg skýr og það hlýtur að koma til verulegrar togstreitu milli hans og Háskóla Íslands eins og við höfum reyndar orðið vitni að nokkrum sinnum á undanförnum árum. Ef sú ákvörðun hefði verið tekin 1975 að byggja upp til langframa kennaramenntun á Akureyri þá er ég alveg sannfærður um að það hefði verið mjög skynsamlegt skref. Í þessum tillögum var líka hugmynd um það að flytja Veðurstofuna. Veðurstofan er ágætt dæmi um opinbera stofnun sem getur nánast verið hvar sem er. Það eru engin sérstök rök fyrir því að hún sé hér á höfuðborgarsvæðinu, engin sérstök rök. Og þess eru dæmi úr þessum löndum að veðurstofur eru víðs fjarri höfuðborginni. Ég gæti svo sem rakið hér fjölmörg önnur dæmi. En niðurstaðan varð sú að það skorti pólitískan vilja, bæði í ríkisstjórnum og hér á Alþingi fyrir því að koma þessu í framkvæmd.
    Það sem kom mér hins vegar nokkuð á óvart var, og það verður að segja þá sögu eins og hún var, að það virtist líka skorta vilja hjá samtökum sveitarfélaga og landshlutasamtökum til þess að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Við héldum satt að segja að hinn félagslegi bakhjarl, ég vil nú ekki segja hinn pólitíski bakhjarl vegna þess að það mætti misskiljast, en hinn félagslegi bakhjarl þessarar tillögugerðar yrðu landshlutasamtökin og samtök sveitarfélaga sem markvisst voru að reyna að vinna að því að efla landshlutana, en svo varð ekki. Það kom satt að segja mjög lítill stuðningur frá landshlutasamtökunum við þessa tillögugerð. Og hver var skýringin á því? Ég held að skýringin hafi verið sú að annars vegar ríkti tortryggni, skortur á stuðningi, skortur á skilningi milli samtakanna og menn sáu kannski ofsjónum yfir því að þessi landshluti ætti að fá þessa stofnun og annar einhverja aðra og það hafi kannski eimt dálítið eftir af þeim hugsunarhætti sem einn ágætur bæjarstjóri á Austurlandi orðaði einu sinni og frægt hefur orðið, að vont væri Reykjavíkurvaldið, verra væri Akureyrarvaldið en verst væri þó Egilsstaðavaldið.
    Einnig kom það í ljós að margir af þessum forsvarsmönnum landshlutasamtakanna og sveitarfélaganna vildu í reynd hafa stjórnkerfið þannig að á höfuðborgarsvæðinu gætu þeir sinnt erindum sínum við hinar fjölmörgu stofnanir með hvað haganlegustum hætti.
    Þá erum við komin að einum þætti þessa máls sem er alveg lykilatriði en er á engan hátt vikið að, hvorki í þessari greinargerð eftir því sem ég hef lesið hana né heldur í lagafrv., og það er samgöngukerfið í landinu. Eitt af því sem hefur staðið í vegi fyrir byggðaþróun á Bretlandseyjum er að járnbrautakerfið sem þar var byggt upp fyrir margt löngu síðan var allt byggt upp á þann veg að járnbrautalínurnar lágu frá London og til annarra borga. Yfirleitt upp og niður eftir landinu eða frá suðri til norðurs og frá norðri til suðurs. Þær lágu mjög lítið þvert á landið eða frá vestri til austurs. Þetta járnbrautarkerfi gerði það mjög erfitt að flytja stofnanir til ýmissa hluta Bretlandseyja og ætlast til þess að menn gætu náð þangað í erindum sínum með eðlilegum hætti.
    Við höfum ekki járnbrautir hér eins og allir vita þó að hæstv. samgrh. ætli að láta þingið samþykkja alveg sérstök lög um það mál vegna EES-samningsins. En við erum með flugsamgöngur og þótt flug hafi aðeins aukist milli Ísafjarðar og Akureyrar og Akureyrar og Egilsstaða, þá er samgöngukerfið landsins byggt upp þannig í grófum dráttum að það liggur frá höfuðborginni út til annarra landshluta. Það er nánast vonlaust að ná árangri af því tagi sem um getur í 2. gr. þessa frv. nema gjörbreyting eigi sér stað á samgöngukerfi landsins. Markmiðið sem sett er fram í 2. gr. frv. er á engan hátt raunhæft nema gjörbylting verði í samgöngukerfi landsins.
    Svar flugfélaganna þegar við ræddum þessi mál á sínum tíma í nefndinni fyrir 20 árum síðan var auðvitað að slíkar flugleiðir væru ekki arðbærar. Það var vissulega alveg rétt. Og þá kemur auðvitað að þeirri grundvallarspurningu: Er hið opinbera reiðubúið að styrkja samgöngur með fjárframlögum sem liggja milli landshlutanna en ekki bara milli höfuðborgarsvæðisins og landshlutanna til þess að greiða fyrir slíkum stofnanaflutningi? Þar eru menn að tala um verulega fjármuni. ( KHG: Svarið liggur fyrir.) Og þá verða menn að horfast í augu við það. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir að svarið liggi fyrir og ég hugsa að það sé rétt hjá honum. Alla vega hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr og kannski öðrum er svarið nei. Á samdráttartímum eru menn ekki tilbúnir að setja verulega fjármuni í slíkt.
    Ég vil minna á ummæli núv. hæstv. samgrh. núna nýverið þar sem hann hefur verið að fordæma þá fjármuni sem settir hafa verið í ferjur á milli Vestmannaeyja og lands og milli Snæfellsness og Vestfjarða. Ferjur sem þó gefa íbúum Vestmannaeyja og íbúum Vestfjarða möguleika á því að geta lifað eðlilegu viðskipta- og félagslífi eins og aðrir landsmenn. Hv. þm. Árni Johnsen hefur að vísu séð ástæðu til að snupra hæstv. samgrh. sérstaklega fyrir þessi ummæli og benda þjóðinni á að algengt sé að hæstv. samgrh. tali áður en hann hugsar. Er sérkennilegt að þessi þingmaður skuli vera að setja sig í spor siðapostula hér í þinginu eins og hann gerði fyrr í dag varðandi það hvernig eigi að tala um ráðherra og við ráðherra. Engu að síður er það staðreynd að hann hefur gagnrýnt hæstv. samgrh. fyrir þetta og bent þjóðinni á að taka mátulega lítið mark á ráðherranum vegna þess að hann sé ávallt að tala án þess að hugsa.
    Þegar það blasir við að ráðherra í núv. ríkisstjórn segir: Það er sóun á fjármunum að leggja svona mikið í Herjólfsferjuna, í Breiðafjarðarferjuna og væntanlega einnig Eyjafjarðarferjuna, þá sjá menn hvað er á brattann að sækja við að búa til samgöngukerfi sem miðast ekki við fjöldaflutninga milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og stóru þéttbýliskjarnanna í öðrum landshlutum hins vegar.
    Í umræðunum hefur komið fram að núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir því að setja á laggirnar nefnd til að fjalla um flutning ríkisstofnana. Mér skilst einnig að hæstv. forsrh. hafi ráðið fyrrv. alþm., Þorvald Garðar Kristjánsson, til fullra starfa eða a.m.k. í verulegt starf til þess að sinna þessari nefnd. Það var meira en gert var á sínum tíma við mig og ég lofa það í sjálfu sér. Það hefur einnig frést að sett hafi verið upp sérstök skrifstofa undir þessa starfsemi í fyrrum húsnæði Samvinnubankans og forsrn. sé búið að taka á leigu þó nokkurn fermetrafjölda með skrifstofuaðstöðu, jafnvel fundaaðstöðu og öðru til þess að gera vel við formann nefndarinnar og þetta nefndarstarf og ætla ég ekki að lasta það. Ég ætla ekki að gagnrýna það. En það setur alveg sérstaka kvöð á núv. ríkisstjórn að gera eitthvað í málinu. Ég yrði fyrstur manna til þess að fagna því að nú yrði loksins farið að gera eitthvað í málinu. En ég hlýt þó að vekja athygli á því að senn eru liðin tvö ár síðan núv. ríkisstjórn tók við og senn fer að halla undan fæti hvað öruggan valdatíma hennar snertir svo hún þarf að fara að safna kröftum ef hún ætlar að koma einhverjum af þessum breytingum í gegn á kjörtímabilinu.
    Mér hefur hins vegar fundist bera dálítið á því að forsrh. hefði fyrst og fremst áhuga á að flytja Byggðastofnun af því að hann hefur verið í stríði við þá stofnun. Það er auðvitað mjög vont ef mikilvægt mál eins og flutningur opinberrar starfsemi til annarra landshluta fær á sig þann blæ að það sé tæki einstakra ráðherra til að hefna sín í fyrsta lagi á samþingsmönnum sínum, í þessu tilfelli hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, eða nota þetta sem eins konar baráttutæki í innanflokksstyrjöldum í þingflokki Sjálfstfl. því að það er auðvitað vitað að hv. fyrrv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson var traustur stuðningsmaður Davíðs Oddssonar í formannskjöri í Sjálfstfl. --- Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Árna Mathiesen að vera undrandi yfir því vegna þess að hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson skrifaði blaðagrein um það í aðdraganda landsfundarins. Það fór því ekkert leynt. Það fór heldur ekkert leynt að hv. þm. Matthías Bjarnason studdi Þorstein Pálsson. Það fór heldur ekkert leynt á Vestfjörðum árum saman að það voru vægast sagt ekki miklir kærleikar með þessum tveimur þingmönnum Sjálfstfl. Svo málið er náttúrlega dálítið sérkennilegt ef maður skoðar það frá þeim sjónarhól hvernig hæstv. forsrh. hefur kosið í fyrsta lagi að velja formennsku í nefndina og í öðru lagi leggja það til að nefndin skuli fyrst og fremst í byrjun sjá um það að Byggðastofnun sé flutt þegar ljóst er að hv. þm. Matthías Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar, hefur lýst yfir andstöðu við það. En ég ætla að vona að þetta mál drukkni ekki í innanflokksátökum í Sjálfstfl.
    Í þessu frv. er hins vegar sett það markmið að við lok tíu ára tímabils skuli 40% af starfsemi ríkisstofnana, reiknað sem hlutfall af heildarlaunagreiðslum, fara fram utan höfuðborgarsvæðisins. Ég held, virðulegi forseti, að þetta hljóti að vera byggt á einhverjum misskilningi. Flm. getur varla verið alvara með þessari tillögu. Ég vona að ég verði ekki vændur um það hér að ég sé ekki áhugamaður um flutning ríkisstofnana. Ég er mikill áhugamaður um flutning ríkisstofnana og ég held að mér verði fyrirgefið þó að ég segi það hér sjálfur að ég held að enginn þingmaður hér inni hafi varið jafnmiklum tíma og ég til þess að sinna því verkefni. En lagagrein sem byggist á því markmiði að 40% af allri starfsemi ríkisins, mælt í launagreiðslum, skuli eftir tíu ár vera komin út fyrir Reykjavík og Reykjaneskjördæmi eða höfuðborgarsvæðið gengur einfaldlega ekki upp. ( Gripið fram í: Hvert er hlutfallið í dag?) Ég hef það ekki við hendina hvert hlutfallið er í dag. Ég hef ekki lesið það. Ef það stendur í greinargerðinni er alveg sjálfsagt að fletta því upp. Það stendur 32,37%. (Gripið fram í.) Já. Ég reikna með að í þessari tölu séu menn með heilbrigðiskerfið og skólakerfið og allt það inni.
    Auðvitað er hægt er að haga skipulagi heilbrigðis- og skólakerfis með þeim hætti að það hafi afgerandi áhrif á þetta hlutfall. Ég tala ekki um ef menn fara að beita á þetta þeirri skilgreiningu sem núv. menntmrh. virðist ætla að beita sér fyrir að flytja grunnskóla frá ríkinu til sveitarfélaganna. ( Gripið fram í: Það er ekki veruleikinn enn þá.) Nei, það er ekki veruleikinn enn þá. En það sýnir hins vegar hvað svona markmið, sem er kjarninn í frv., er óraunhæft. Tölfræði af því tagi sem sett er upp sem markmið í frv. er óraunhæf vegna þess að við erum t.d. með ríkisstjórn sem er með veigamiklar tillögur um að breyta hlutföllum ríkisins í hagkerfinu. Mér er t.d. sagt að fjmrn. sé með alls konar reikningskúnstir um hvernig eigi að færa fjármuni milli ríkis og sveitarfélaga og kannski kemur það til umræðu í þinginu einhvern tíma á næstunni.
    Við það að flytja grunnskóla frá ríkinu til sveitarfélaganna gjörbreytist þetta hlutfall. Við það að flytja heilsugæslustöðvarnar frá sveitarfélögunum og yfir til ríkisins gjörbreytist þetta hlutfall líka. Með slíkum einföldum breytingum, sem hafa akkúrat engin áhrif á staðsetningu stofnana vegna þess að grunnskólarnir verða áfram á sama stað og þeir hafa verið, heilsugæslustöðvarnar verða áfram á sama stað og þær hafa verið, getur þetta hlutfall alveg hlaupið upp og niður. Ég sé því ekki að þetta hlutfall segi eitt eða neitt um flutning ríkisstofnana.
    Kjarni málsins er hins vegar sá hvort menn hafa pólitískan vilja til að ráðast í það erfiða verk að taka ríkisstofnun sem hér er búin að koma sér fyrir, segja við starfsfólk þessarar stofnunar: Nú verðið þið að flytja heimkynni ykkar ef þið ætlið að starfa áfram hjá þessari stofnun, og færa þannig kannski til nokkur hundruð fjölskyldur eða kannski upp undir eitt þúsund fjölskyldur í landinu og setja þær niður annars staðar. Í tíð síðustu ríkisstjórnar glímdi þáv. landbrh. við það að flytja höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins frá höfuðborgarsvæðinu og til Egilsstaða. Hann getur auðvitað rakið mjög ítarlega þá sögu en það reyndist mjög erfitt verk. Vegna hvers? Jú, vegna þess að af eðlilegum ástæðum fannst mörgum sem áttu sín heimkynni hér og makinn stundaði kannski annað starf sem tengt var atvinnumarkaði þessa svæðis, það nánast ekki ganga upp að eiga að standa frammi fyrir því að starfshagsmunir beggja hjónanna færu ekki lengur saman hvað svæðið snertir.
    Ástæðan fyrir því að ég er að nefna þetta hér er að mér er það mikið áhugamál að eitthvað gerist í þessum efnum þó það gangi kannski á hagsmuni þess kjördæmis sem ég er fulltrúi fyrir. Það hefur ekkert með það mál að gera. En mér finnst að þá eigi að reyna að ganga frá löggjöfinni þannig að hún knýi viðkomandi stjórnvöld til þess að takast á við það alvarlega verkefni að taka stofnanir sem hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og flytja þær í raun og veru til en ekki breyta einhverjum ráðningarhlutföllum eða skrásetningarhlutföllum, hvort menn heita ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga eða starfsmenn einkageirans án þess að það breyti einu eða neinu um heimkynni viðkomandi stofnana.
    Það væri t.d. mjög fróðlegt að sjá það hvernig þetta 40% hlutfall mundi breytast eða þetta 32,37% hlutfall mundi breytast ef heilsugæslustöðvarnar væru aftur færðar til sveitarfélaganna. Það væri mjög fróðlegt að sjá það. Og ef grunnskólinn væri færður til sveitarfélaganna algerlega væri mjög fróðlegt að sjá það hvað þetta 32,37% hlutfall yrði. Ég er hræddur um að það mundi lækka allverulega.
    Ég vil þess vegna eindregið beina því til þeirra sem fá þetta frv. til umfjöllunar að skoða málið alvarlega og reyni að finna frv. þann búning að það í raun og veru knýi stjórnvöld til þess að gera eitthvað í málinu því að það er það sem þarf. Við getum í sameiningu reynt að finna ýmsar aðrar leiðir en þær sem er eru tilgreindar í frv. til þess.
    Að lokum, virðulegi forseti, ætlaði ég að segja nokkur orð um ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Er hann í húsinu? --- Nú, hann situr hér í forsetastól. Mér finnst óþarfi hjá þingmönnum að hlæja því það hefur ekki enn þá verið talið skilyrði fyrir því að tala á þingi að hafa augun í hnakkanum. En ég er mjög ánægður með að sjá hv. þm. í forsetastól og mun ekki inna nánar eftir því hvort hann sé í þingsalnum.
    Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson kaus að nota þetta tækifæri til þess að víkja nokkuð að Seðlabanka Íslands. Það var dálítið sérkennilegt þó að ég fagni því að sjálfsögðu. Það er kannski líka afsprengi einhverrar þingflokksumræðu í Alþfl. eins og fyrri umræðan í dag um umhvrn. var greinilega afsprengi umræðu í þingflokki Alþfl. En hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson lýsti því yfir að það færi vel að Seðlabankinn yrði undir stjórn eins manns og fækka ætti þremur bankastjórum Seðlabankans niður í einn. Nú vill svo til að ég er alveg sammála hv. þm. og fagna því satt að segja að þingmaður Alþfl. skuli með jafnskýrum hætti koma fram með þetta sjónarmið áður en umræðan hefst um frv. viðskrh. um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands.
    Það var skipuð nefnd til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipun Seðlabankans. Már Guðmundsson hagfræðingur, sem starfaði með mér í fjmrn. og er núna hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, skilaði séráliti í þessari nefnd. Hann lagði til að stjórnkerfi Seðlabankans yrði á þann veg að það yrði einn seðlabankastjóri. Hann færi rök að því að þetta gamla pólitíska lénskerfi sem hefur þróast í Seðlabankanum á Íslandi þar sem Framsfl. hefur einn bankastjóra, Alþfl. einn, Sjálfstfl. einn og Alþb. stundum einn sé gengið sér til húðar. Ég er alveg sammála því að þetta kerfi sé gengið sér til húðar. Vandinn er hins vegar sá að a.m.k. fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. í þessari nefnd vildu hafa þetta gamla lénskerfi áfram. Núv. hæstv. viðskrh. beitti sér síðan fyrir málamiðlun fulltrúa stjórnarflokkanna í nefndinni og út úr henni kom þessi bastarður að áfram er viðhaldið þessu gamla lénskerfi í Seðlabankanum en einn bankastjórinn er gerður pínulítið æðri en hinir. Þannig er hvorki um fjölskipaða bankastjórn að ræða né jafnvægi í henni né heldur það skýra kerfi að einn bankastjóri sé ábyrgur.
    Ég tel að gamla lénskerfið í Seðlabankanum, sem á að framlengja í reynd með þessu frv. sem á að taka til umræðu innan tíðar, sé orðið úrelt. Ég skil satt að segja ekki hvernig maður eins og hæstv. viðskrh. sem vill á stundum láta taka sig alvarlega sem talsmaður nútímavinnubragða í efnahagsstjórn leggur í það að biðja þingið um að samþykkja að framlengja þetta gamla lénskerfi í Seðlabanka Íslands. Ég botna ekkert í því.
    Auðvitað er eina leiðin til að treysta nútímahagstjórn á Íslandi hvað Seðlabankann snertir að gera það alveg skýrt að það eru skil á milli hins pólitíska forræðiskerfis í landinu og Seðlabankans sem stofnunar, velja hæfan einstakling sem á að vera sjálfstæður til að stýra bankanum um ákveðinn tíma og hverfa svo frá þeirri stjórnun og annar komi í staðinn. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson gefur það til kynna úr sæti

sínu í þingsalnum að hann sé sammála þessum sjónarmiðum mínum. Ég fagna því. Ég mun flytja brtt. við frv. þegar það kemur í þá veru að seðlabankastjórinn verði einn, hann verði ópólitískur og faglegur og verði skipaður til ákveðins tíma. Þá reynir á það hverjir í þingsalnum vilja styðja þessi nútímaviðhorf um trausta peningamálastjórn og fagleg vinnubrögð í Seðlabanka Íslands og hverjir vilja viðhalda þessu gamla lénskerfi flokkanna.
    Hins vegar er ekki eðlilegt að halda áfram ítarlegri umræðu um þetta mál undir þeim dagskrárlið sem er til umræðu. En fyrst þessi ágæti þingmaður Alþfl. kaus að gera það þá vildi ég ekki láta hjá líða að lýsa skoðunum mínum. Þá er það orðið ljóst að þessi samflokksmaður viðskrh. og ég erum alveg sammála um málið. Ég tel að það hefði verið meiri sómi að því og farsælla fyrir hæstv. viðskrh. að flytja frv. í anda þeirra hugmynda sem Már Guðmundsson flutti í nefndinni en koma með þennan pólitíska bræðing inn á þingið sem hann ætlar sér greinilega að gera.
    Hitt er líka rétt hjá hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni að Seðlabankinn er auðvitað ágætt dæmi um stofnun sem getur verið hvar sem er á landinu. Það eru engin rök fyrir því að Seðlabankinn sé á Arnarhólnum.
    Virðulegur forseti. Ég vona að flm. þessa frv. misvirði það ekki við mig þó ég hafi kannski talað um það í nokkrum gagnrýnistón. ( JGS: Af því hafðir ekki lesið það.) Það er rangt hjá hv. þm. að ég hafi ekki lesið það og sýnir kannski andann í hv. þm. Kannski dálítið viðkvæmt fyrir hann að verja hér feril Framsfl. um flutning ríkisstofnana. Ég er alveg tilbúinn að ræða það. Tuttugu ára aðgerðaleysi Framsfl. varðandi flutningi ríkisstofnana. Ef þingmaðurinn Jóhannes Geir vill hafa umræðuna í þessum dúr þá er ég tilbúinn til þess. Hvernig stóð á því að Framsfl. í ríkisstjórninni 1974--1978 gerði ekkert varðandi flutning ríkisstofnana? Hvernig stóð á því að ráðherrar Framsfl. stungu undir stól ítarlegustu tillögum sem settar hafa verið fram um flutning ríkisstofnana? Hvernig stóð á því að þingflokkur Framsfl. studdi ekki frv. sem Helgi Seljan flutti hér ár eftir ár um málið? Við getum alveg rætt þá sögu ef þingmaðurinn vill fara að setja þennan anda inn í umræðurnar. Alveg sjálfsagt mál. Framsfl. á nefnilega ekki mjög glæsilegan feril í því máli.
    Hins vegar er staðreynd að þau 40% mörk sem eru eini efniskjarninn í frv., því allt hitt eru bara umbúðir, eru ekki raunhæf að því leyti til að þau ráðast af allt öðru en flutningi stofnana. Þau ráðast af verkaskiptinu ríkis og sveitarfélaga. Það er hægt að umturna þessum mörkum með einföldum frv. á Alþingi án þess að ein einasta stofnun breyti um heimilisfang. Það getur hv. þm. ekki hrakið hversu oft sem hann les frv.
    Það má vel vera að ég hafi misskilið að þetta sé alvörufrv. Það er kannski staðreyndin að þetta hafi verið flutt til að Framsfl. gæti slegið einhverjar kosningakeilur á þessu og breitt yfir þessa 20 ára sögu. Það má vel vera. Ég kaus hins vegar að taka þetta alvarlega en hef kannski misskilið það. Kannski er þetta bara áróðursfrv.
    Hins vegar er það verkefni sem þarf að taka á hvernig við getum treyst byggðir landsins og skapað möguleika fyrir ungt menntafólk til að geta sest að í heimkynnum sínum. Það gerum við ekki nema við reynum að efla starfsemi í öllum landshlutum sem skapar starfsgrundvöll fyrir fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Það er einhæfni atvinnulífsins úti um land sem er einn erfiðasti þátturinn varðandi jafnvægi í byggð landsins. Flutningur ríkisstofnana er veigamikið tæki til að reyna að ná tökum á því vandamáli. Því miður hefur skort pólitískan vilja í ríkisstjórnum, á Alþingi og líka hjá landshlutasamtökunum og samtökum sveitarfélaga til að gera eitthvað raunhæft í þessum málum.