Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 16:02:46 (5017)


     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi benda hv. þm. á þegar menn tala um flutning ríkisstofnana að það eina sem þingmaðurinn nefndi áðan var flutningur Skógræktar ríkisins. Nú vil ég síst af öllu gera lítið úr vinnu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að framkvæma það verk. Það mun ég ekki gera og það virði ég við hann. Ég vil hins vegar benda hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni á að þar með var framkvæmdarvaldið að framfylgja þáltill. sem samþykkt var á Alþingi og fyrsti flm. að var Jón Kristjánsson, þingmaður Framsfl. á Austurlandi. Ég held að við ættum kannski að spara okkur stóryrðin.
    Ég sagði hv. þm. áðan að ég mundi í ræðu á eftir fara yfir störf Framsfl. að byggðamálum og byggingu ríkisstofnana út um allt land. Það mun ég gera. Ég býst við að þegar skoðuð er saga þessa 20 ára tímabils, sem hv. þm. nefndi, komi í ljós að ekki í annan tíma á þessari öld, nema kannski undir forustu Jónasar frá Hriflu þegar héraðsskólarnir og fleiri mannvirki voru byggð upp, hafi meira verið gert í uppbyggingu opinberrar þjónustu á landsbyggðinni en á þessum margfrægu framsóknaráratugum.
    Það er svo annað mál að á þessu tímabili var umræðan að þróast um flutning ríkisstofnana. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að á þessu tímabili náðist ekki pólitísk samstaða um slíkt. Hins vegar er mjög erfitt að ætla að heimfæra það upp á einhverja ákveðna stjórnmálaflokka. Það var kannski miklu frekar tíðarandinn og eins og ég nefni í greinargerð með tillögunni að á landsbyggðinni trúðu menn því á þessum tíma að það væri fyrst og fremst uppbyggingin í grunnatvinnuvegunum sem mundi færa byggðamálin í það horf sem menn vildu. Það þjónar engum tilgangi nú að fara að velta sér upp úr því hvað hefði gerst eða hvernig hefði verið ef menn hefðu ákveðið að flytja kennaramenntun á háskólastigi til Akureyrar árið 1975. Það hafa, hv. þm., verið skrifaðar svo margar skýrslur sem hefur verið stungið undir stól og ekki farið eftir. Það væri hægt að tína mýmörg dæmi upp úr þeim ef menn vildu fara út í þann leik.