Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 16:25:30 (5020)

     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson ):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég vil þakka síðasta ræðumanni hans ræðu sérstaklega. Hún var svona í þeim anda sem ég hefði viljað sjá þessa umræðu fara fram vegna þess að við eigum að geta tekið þessa umræðu án þess að láta hana fara út í flokkspólitískt karp. Og því betur er það nú oftar en ekki um meðferð slíkra mála hér í þingsölum að menn ræða þau á málefnalegan hátt. Alþingi Íslendinga er málþing og það hlýtur að vera hluti af hlutverki þess að hér reyni menn að nálgast kjarna málsins með málefnalegum umræðum.
    Ég ætla í upphafi að svara hv. þm. Árna Mathiesen einni spurningu sem hann lagði fyrir mig, úr því að ég vildi hafa samræmi milli landshluta í rekstri ríkisstofnana, hvort ég vildi þá líka jafna atkvæðavægið milli landshluta. Ég vil nú ekki bera þetta alveg eins mikið saman eins og hv. þm. gerir en það var hins vegar nokkuð klókt hjá honum að koma fram með þetta á þennan hátt og neyða mig þá til þess að lýsa yfir minni skoðun á þessu máli eða þrýsta á það. Það vill reyndar þannig til að það er á leiðinni í einu dagblaða landsins grein eftir mig þar sem ég reifa þessi mál, kjördæmaskiptinguna og vægi atkvæða. Ég

er þeirrar skoðunar að sú breyting sem gerð var á kosningalögum og búið er að kjósa eftir tvisvar sé í sjálfu sér það vitlaus að hún ein knýi á um breytingar. Nú segi ég það ekki vegna þess að það vill svo til að þessi breyting geri það að verkum að við næstu kosningar var það þingsæti sem ég sat í, 6. þm. Norðurl. e., að flytjast til Reykjaness því að það svo sem kemur því máli ekki við. En við höfum bara séð framan í þetta kerfi síðustu tvennar kosningar og séð hvernig það er í raun. Þar átti að samræma tvennt sem í raun var ósamrýmanlegt: Annars vegar að þingsæti skiptust hlutfallslega milli stjórnmálaflokka og hins vegar að viðhalda vissu ójafnvægi atkvæða milli landshluta. Út úr þessu kom þessi bastarður. Ég nefni eitt lítið dæmi um það hvernig þetta kerfi getur virkað. Ef Framsfl. í Norðurl. e. hefði fengið 30--40 atkvæðum færra en hann fékk í síðustu kosningum og þau atkvæði hefðu skipst á ákveðinn hátt, þá hefði Framsfl. áfram verið með rúm 36% af atkvæðum í kjördæminu en tvo þingmenn af sjö. Þá hefði hins vegar það gerst að Sjálfstfl. með 24% atkvæða hefði verið með þrjá þingmenn af sjö. Það sýnir bara hvað þetta kerfi er í raun vitlaust og þetta hefði þýtt rúllettu þar sem þingmenn hefðu skipt um sæti nánast í öllum kjördæmum. En svona fór þetta nú ekki.
    Frægt er það með hv. 3. þm. Austurl. sem í tvígang fór inn á móti öllum líkum. Nú er ég ekki að lasta það og ég reyndar fagna því að við höfum þann þingmann hér með okkur, ágætan formann okkar í landbn. En þetta kerfi sem við búum við núna er ekki til frambúðar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þær tillögur sem Sjálfstfl. hefur lagt fram séu ekki til bóta. Þær eru frekar til þess að ala á kjördæmaríg og landshlutaríg í þessu máli. Við verðum hins vegar að finna einhverja sátt og það sem ég sé kannski helst í þessu máli er að við finnum einhverja leið sem verði sambland af því að viðhalda núverandi kjördæmaskipun þ.e. þessum átta kjördæmum og síðan komi níunda kjördæmið sem verði landið allt. Þetta verði þá á einhvern þann hátt að helmingur þingmanna --- nú læt ég það liggja milli hluta hvort þeir verða 63 eða 53 eða hvað margir, ég held að það sé ekki aðalatriðið í þessu --- verði kjördæmakosinn með sem jafnastri tölu þingmanna í hverju kjördæmi, hinn helmingurinn verði síðan kosinn af óbundnum landslistum og þar vegi atkvæðavægið að fullu. Flokkarnir geta þá stillt upp á þá lista að nokkru eftir því hvaða áherslu þeir leggja á einstaka landshluta þannig að þetta yrði nokkurs konar blönduð leið. Ég tek það skýrt fram að með slíkri kosningu tel ég engan veginn að við þyrftum að fara að skipta þinginu aftur í tvær deildir en helmingur þingmanna yrði samkvæmt þessu kosinn af landslista og þeir væru þá þingmenn kjördæmisins Íslands sem væri landið allt.
    Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nálgast þetta mál á einhvern þennan hátt, eftir einhverri leið sem mundi fremur draga úr en auka þá spennu sem er vissulega til staðar milli landshluta varðandi þetta atriði. Ég er þeirrar skoðunar að kerfi eitthvað í líkingu við þetta mundi verða öllum aðilum til hagsbóta og ekki síst landsbyggðarfólkinu og hinum dreifðu byggðum. Ég held að við finnum það öll, þingmenn, að við höfum afskaplega gott af að ferðast um önnur kjördæmi en okkar eigin og kynnast staðháttum og aðstæðum fólks þar. Það að allir stjórnmálaflokkarnir hafa í auknum mæli unnið þannig síðustu árin bendir til þess að menn vilji meira fara að líta á þetta mál þannig að þingmenn séu fulltrúar alls landsins í meiri mæli heldur en einstakra landsvæða eða kjördæma. Hv. þm. verður að láta þetta svar duga við spurningu sinni.
    Varðandi það sem hann nefndi um að hv. þm. Stefán Guðmundsson hefði verið á móti flutningi aðalstöðva Byggðastofnunar til Akureyrar, þá er það rétt. Hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur í þessu máli talið að það væri betra að fara aðra leið sem oft er rædd þegar talað er um flutning ríkisstofnana, að flytja stofnunina þannig út á land að mikill hluti starfseminnar fari fram í útibúum í fjórðungunum en höfuðstöðvarnar verði áfram í Reykjavík. Ég get tekið fram að ég er ekki sammála hv. þm. í þessu. Ég tel að það séu full rök fyrir því að Byggðastofnun geti verið með sínar höfuðstöðvar á Akureyri þó svo menn viðhaldi því að vera með starfsstöðvar einnig í öðrum landshlutum þá geti einfaldlega verið starfsstöð einnig hér í Reykjavík og sinnt því sem þar þarf að gera.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Gunnlaugur Stefánsson kusu að nota þetta mál hér til að fara í nokkuð harða flokkspólitík. Nú er ég þeirrar skoðunar að það út af fyrir sig sé ekki málstaðnum til nokkurra bóta. Málið er ekki þannig vaxið --- eins og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði --- að nú væri komin til valda ríkisstjórn sem ætlaði að fara að láta verkin tala í þessu --- ég hef reyndar hrakið það hér í andsvari áður --- hún ætli að fylgja eftir sínum málefnasamningi og nú fari loksins eitthvað að gerast. Málið er ekkert þannig. Málið er heldur ekki þannig að ef framfylgt hefði verið tillögum í skýrslu nefndar, sem framsóknarmaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson veitti forstöðu á þeim tíma, þá væri allt miklu betra í dag í þessum málum. Þetta þjónar málstaðnum ekkert heldur. Málið er það, eins og ég sagði hér áðan, að það hefur verið gerður aragrúi af skýrslum og það er kannski vandamál okkar síðustu árin að það hafa verið búnar til of margar skýrslur. Ef við tíndum til allar þær skýrslur sem hafa verið gerðar um byggðaþróun, um skiptingu landsins í sveitarfélög, þriðja stjórnsýslustigið og allt þetta þá yrði sá bunki ansi hár, ætli hann mundi ekki slaga upp í öll málskjöl EES-málsins ef allt væri tínt til. Málið er hins vegar það að málunum hefur ekki verið fylgt eftir ýmissa hluta vegna, m.a. vegna þess að hið pólitíska land hefur legið á þann hátt. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Og hið félagslega bakland, eins og hann rakti réttilega áðan, var ekki tilbúið og það er kannski þungamiðjan í þessu.
    Við stóðum hins vegar á þessum árum, og það nefndi ég hér áðan, í geysilegri uppbyggingu út um allt land á ríkisstofnunum, á samgöngukerfinu, sem hvort tveggja er þungamiðjan og kannski grunnurinn

fyrir því að gera annað og meira. Ég nefni í þessu sambandi að á þessum margfrægu framsóknaráratugum voru samþykkt ný grunnskólalög og grunnskólinn byggður upp á ný frá grunni, bæði kennslulega séð og að verulegu leyti líka hvað snertir húsnæði, tæki og mannafla. Það yrði til að æra óstöðugan að telja upp öll þau nýju störf sem það hefur skapað út um allt land. Í framhaldi af þessu höfum við --- og þá segi ég við, íslensk stjórnvöld, því um þetta hefur ríkt veruleg samstaða þó svo það hafi komið í hlut Framsfl. að vera í stjórnarforustu mikið af þessum tíma --- byggt upp framhaldsskólann sem hefur gert það að verkum að unga fólkið hefur getað verið fjórum árum lengur í sinni heimabyggð eða í sínum landshluta og stundað þar framhaldsmenntun. Sömuleiðis þar skipta störfin ekki tugum heldur hundruðum, ný störf sem hafa skapast á landsbyggðinni í tengslum við þetta.
    Ég nefni einnig heilsugæsluna og sjúkrahúsin. Á þessum áratugum höfum við verið að byggja upp heilsugæsluna um allt land. Við höfum verið að byggja upp og bæta við þau sjúkrahús sem eru úti um land og sömuleiðis þar eru ný störf á landsbyggðinni sem þessu tengjast ekki talin í tugum, það eru hundruð ef ekki þúsund. Þetta bið ég menn að hafa í huga þegar menn stíga hér í ræðustól, hvort sem það er hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson eða hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, og tala um hvað framsóknarmenn hafi verið að gera í byggðamálum og uppbyggingu opinberra stofnana út um land á þessum 20 árum. Ég nefni það einnig og það tengist því sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði hér áðan að á þessum tíma hefur samgöngukerfi landsins verið byggt upp. Um það hefur verið sátt og samvinna meðal þingmanna og innan Alþingis, þó svo eins og ég sagði áðan að það hafi komið í hlut framsóknarmanna að veita ríkisstjórnum forustu lengst af á þessum tíma, og þessar samgöngubætur í vegakerfinu og í flugvöllunum eru kannski, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Árna Mathiesen hér áðan, ein höfuðforsendan fyrir því að við getum farið að stíga stærri og fleiri skref í því að flytja stofnanir. Hv. þm. Árni Mathiesen lýsti því hér greinilega og skýrt áðan að samgöngukerfið í dag er í raun enginn þröskuldur fyrir því að menn geti flutt stofnanir. Við þekkjum það sem búum úti á landi og höfum tekið virkan þátt í félagsmálum og atvinnulífinu að menn fara hér á milli landshluta á dagstundum, það er ekkert mál. Því betur er það svo að . . .   ( Gripið fram í: Það getur verið það.) Það getur verið það, það er alveg rétt. En það er nú bara eitt af því, hv. þm., sem fylgir því að vera Íslendingur og búa á Íslandi að verða að glíma við óblíð náttúruöfl þegar þannig ber undir. Og ef hv. þm., sem ég vil nú alls ekki ætla honum, er að meina það, þá væri eina lausnin að við yrðum öll að vera á einhverjum einum bletti þannig að við kæmumst okkar ferða og gætum farið milli stofnana burt séð frá veðri og vindum en þá væri það hin eina lausn en ég veit reyndar að það er ekki hans skoðun. Þannig að við verðum að takast á við að búa í þessu landi sem sýnir okkur oft óblíðar móttökur, og við viljum það.
    Þetta er nú það, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur verið höfuðþunginn í byggðamálunum og uppbyggingu ríkisstofnana út um land síðustu 20 árin. Ég ítreka það sem ég sagði hér í andsvari áður að þegar menn fara að skoða söguna þá hef ég trú á því að það verði litið á þennan tíma sem einhvern mesta uppbyggingartíma hvað þessa þjónustu snertir út um land. Það er svo alveg rétt eins og kemur fram í greinargerð með frv. okkar flm. að umræðan um flutning ríkisstofnana hefur ekki verið mjög markviss á síðustu árum þrátt fyrir allar skýrslurnar. Og þar þurfum við að taka höndum saman núna og taka á þeim málefnum.
    Ég vil nú biðja hv. þm. að skoða það markmið sem hér er sett fram í fullri vinsemd og spyr hann að því hvort honum finnist nokkuð óraunhæft að starfsemi ríkisstofnana, umfang þessa rekstrar, skiptist milli landshluta í eitthvað líkum hlutföllum og íbúafjöldinn er. Það er ekkert annað heldur en það sem þarna er verið að setja fram. Og það er sett fram á þann hátt að við tökum útgangspunkt sem við ætlum að bera okkur saman við hvernig hefur tiltekist á næstu árum. Sú mælieining, og það ítreka ég aftur, getur staðið alveg óhögguð burt séð frá því hvað verið er að flytja af starfsemi milli ríkis og sveitarfélaga einfaldlega vegna þess að það er tekið hér fram í skýringum með frv. að við miðum við ákveðinn tímapunkt og stöðuna eins og hún var þá í þeirri starfsemi sem þá er á vegum ríkisins. Það er einfaldasti hlutur í heimi, þó að um væri að ræða einhverja tilfærslu á milli sveitarfélaga og ríkisins að bera þetta saman, þessa sömu starfsemi frá ári til árs. Það eru engar reiknikúnstir og því síður einhver áróðursbrögð eða sýndarmennska eins og hv. þm. sagði hér í ræðu sinni áðan.
    Ég tel mig hafa sýnt það í mínu félagsmála- og pólitíska starfi að mér er full alvara þegar ég ræði um byggðamál og flutning ríkisstofnana og ég hef reynt eftir því sem ég hef getað að veita slíkum málum lið. Þannig að ég hafna því algerlega og vísa því á bug að hér sé um að ræða eitthvert ómerkilegt áróðursfrv. eins og hv. þm. sagði áðan. Ég vænti þess þegar þetta frv. fer til umfjöllunar í nefnd þá verði það tekið eins og hugur er á bak við það hjá flm. og tekið á því af fullri alvöru.
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég þarf að hafa þessa ræðu miklu lengri. En ég vil þó upplýsa hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson um að við deilum skoðun algerlega hvað það snertir og erum sammála varðandi yfirstjórn á Seðlabankanum. Ég er þeirrar skoðunar að þar eigi að vera einn faglegur bankastjóri. Það væri ósk mín að málið færi í þann farveg þegar við vinnum það frekar hér innan þingsins.
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur að mínu mati verið, þrátt fyrir allt, gagnleg og vonandi svona einn steinn í þá hleðslu að við náum því á næstu árum að fara í alvöru í flutning á ríkisstofnunum. Nú vil ég taka það fram, miðað við það sem hér hefur komið fram í umræðunum fyrr, að slíkt þarf alls ekkert að gerast með því að menn flytji stofnanir í heilu lagi. Enda er það tekið fram í greinargerð með frv. að

það geti gerst með því að flytja stofnun í heilu lagi, flytja hana að hluta eða flutningurinn taki mörg ár. Það væri kannski það æskilegasta. Það er komið útibú Rannsóknastofu fiskiðnaðarins í tengslum við Háskólann á Akureyri. Og ég minni hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson á að það var hv. þm. Halldór Ásgrímsson sjútvrh. sem gekk fram í því til að styrkja Háskólann á Akureyri með því að koma þar á fót útibúum bæði frá Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ég hefði getað séð hlutina þróast þannig hvað þetta snertir að innan einhvers árabils værum við búnir að snúa hlutunum við, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins væri staðsett á Akureyri í tengslum við rannsóknastofnun háskólans þar en það væri orðið útibú frá henni hér í Reykjavík. Á slíkan hátt geta hlutir gerst á mjög sársaukalítinn hátt fyrir starfsfólk og aðra sem tengjast starfseminni.
    Ég verð þó að lokum varðandi þennan þátt að nefna eitt dæmi. Ég hlustaði á mjög athyglisvert erindi hjá Steinþóri Skúlasyni, framkvæmdastjóra Sláturfélags Suðurlands, fyrir nokkrum mánuðum þar sem hann sagði frá flutningi SS á Hvolsvöll, sem var kannski neyðaraðgerð að hluta en hún var framkvæmd og ef ég man rétt m.a. með dyggum stuðningi hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem fjmrh. að liðka til að þetta gæti gerst. Í þessu erindi kom fram að allir, hver og einn einasti lykilmaður fyrirtækisins flutti með austur á Hvolsvöll. Og eftir því sem hann segir líkar þeim vistin bara vel. Þannig að kannski gera menn of mikið úr þessum hlutum stundum.
    Virðulegi forseti. Ég vil enda á að þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún hafi verið gagnleg. (Gripið fram í.) Nei, virðuleg forseti, nú verð ég að upplýsa hv. þm. um að ég sagðist eingöngu ætla að rekja þessa sögu síðustu 20 árin. Og eins og hv. þm. man eflaust þá skipti Jónas frá Hriflu sér nú lítið af stjórnmálum á þeim tíma. Hins vegar er það athyglisvert að hæstv. utanrrh. lýsir því nú yfir í fjölmiðlum að hann hafi fundið nýjan Jónas frá Hriflu suður í Afríku. (Gripið fram í.) Ef menn vilja skoða slíka sögu þá verða menn kannski að spyrja hæstv. utanrrh.