Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 10:48:49 (5027)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem svo háttar til að ég á þess kost að fjalla um þetta mál í nefnd tel ég ekki nauðsynlegt að ræða það mjög mikið á þessu stigi en þó eru tvö atriði sem mig langaði til að nefna. Fyrra atriðið er það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra um að nauðsynlegt væri að leiguhúsnæði yrði raunhæfur valkostur í húsnæðiskerfinu. Það kom enn fremur fram í framsöguræðu ráðherra að einungis 13% búa í leiguhúsnæði. Það er því ljóst að leigumarkaðurinn hér á landi er tiltölulega smár einkum ef við miðum við það sem gengur og gerist í nálægum löndum.
    Það er hægt að draga fram mörg atriði til skýringar á því hvers vegna aðstæður hér eru öðruvísi en t.d. annars staðar á Norðurlöndum en eitt af því sem er til nokkurs baga í þróun íbúðarleigu sem raunhæfs valkosts er skattalöggjöfin og sú staðreynd að enn hefur ekki verið gefur skattalegur valkostur til þeirra sem leigja íbúð til jafns við þá sem búa í eigin íbúð. Menn eru með löggjöf sem miðast við að valið sé að koma sér upp eigin húsnæði. Þar á ég fyrst og fremst við vaxtabæturnar sem eru þannig að þeir sem kaupa eða byggja húsnæði til eigin nota fá endurgreidda vexti og verðbætur að ákveðnu marki samkvæmt reglum sem um það gilda. Séu menn hins vegar leigjendur gilda engar sambærilegar ívilnanir gagnvart þeim. Hér er því greinilega um verulega mismunun að ræða eftir því hvorn kostinn fólk velur í sínum húsnæðismálum.
    Það er kaldhæðnislegt að svo skuli vera í dag að það er eiginlega sparnaður fyrir ríkissjóð ef fólk sem á húsnæði velur þann kost að leigja það. Ef það af einhverjum ástæðum leigir húsnæðið fellur niður réttur húsnæðiseigandans til vaxtabóta af lánum íbúðarinnar af því að hún er ekki lengur til eigin nota. Hins vegar öðlast leigjandinn engan rétt til skattafsláttar eða ívilnana sambærilegra við vaxtabætur. Þessi staðreynd vinnur gegn því að boðið sé fram leiguhúsnæði.
    Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvað liði áformum ríkisstjórnarinnar um að koma á húsaleigubótum eða ígildi þeirra. Það er atriði sem hæstv. ráðherra hefur lagt mikið kapp á, að því er mér skilst, að fá í framkvæmd, bæði í þessari ríkisstjórn og þeirri fyrri, en var ekki nægjanlega ágegnt í síðustu ríkisstjórn en þess hefur mátt vænta að hinn nýi samstarfsaðili Alþfl. yrði viðráðanlegri að hrinda fram þessari miklu réttarbót fyrir leigjendur. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað líði úrbótum á þessu sviði.
    Ég vil nefna eitt atriði sem stendur eilítið í mér hvort unnt er að setja í lög en það verður vafalaust skoðað í nefndinni. Það er ákvæði í gildistökugreininni, 85. gr. Þar segir að menn skuli hafa endurskoðað húsaleigusamninga sem eru í gildi við gildistöku laganna, þ.e. sem voru gerðir áður en lögin voru sett, til samræmis við ákvæði þessara laga fyrir 1. sept. 1993. Í raun og veru er þessi lagagrein að rifta þeim samningum þar sem það verður lagaleg kvöð að menn breyti samningi einkaréttarlegs eðlis sín í milli sem er gerður með lögmætum hætti samkvæmt lögum sem gilda þegar þeir eru gerðir. Ekki er ég að nefna þetta vegna þess að ég telji það endilega slæmt að menn breyti sínum samningum til samræmis við frv. --- það getur verið til bóta fyrir menn eða ekki eftir atvikum --- heldur er ég að velta upp þeirri spurningu hvort unnt sé að setja svona ákvæði inn í lög.
    Fleira ætla ég ekki að nefna á þessu stigi, virðulegi forseti, en ég vænti þess að þetta frv. fái rækilega skoðun í nefnd og mun spara mér umræður um einstök efnisatriði frv. önnur en ég hef þegar nefnt til 2. umr. málsins.