Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 10:58:05 (5029)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hún hefur upplýst að fallið hefur verið frá fyrri hugmyndum um húsaleigubætur í gegnum skattkerfið en nú beinist athyglin og vinnan að því að finna upp eitthvert bótakerfi í gegnum sveitarfélögin. Það getur vel komið til greina að mínu viti og tel ég sjálfsagt að skoða til þrautar hvaða leiðir eru færar þar í gegn.
    En mér þykir dálítið merkilegt að eftir að Sjálfstfl. er orðinn samstarfsaðili Alþfl. og hæstv. félmrh., sem hefur alla tíð lagt mikla áherslu á aðstoð við leigjendur, er fallið frá þessari stefnu sem var búið að marka. Ég hlýt að álykta sem svo að það sé að kröfu Sjálfstfl. að fallið sé frá því að leigjendur séu jafnréttháir húsnæðiseigendum í gegnum skattkerfið. Að það sé raunveruleg stefna og krafa Sjálfstfl. að mismunur sé á milli þeirra sem eiga húsnæði og þeirra sem leigja húsnæði af skattalegum ástæðum.
    Annað sem vekur mikla athygli mína er að enginn nefndarmaður Sjálfstfl. í félmn. hefur einu sinni sést í þingsalnum undir framsögu og umræðum um þetta stjfrv. ( Gripið fram í: Það er ekki rétt. Eggert Haukdal hefur setið hér í allan morgun.) Bent er á að Eggert Haukdal hafi hér setið og leiðréttist það hér með. En enginn annar af þremur fulltrúum Sjálfstfl. í félmn. hefur séð ástæðu til að vera viðstaddur umræðu málsins. Reyndar vantar báða fulltrúa hins stjórnarflokksins. Mér þykir tómlæti þeirra sem sæti eiga í nefndinni og mál þetta sérstaklega varðar mjög athyglisvert, svo ég tali ekki um aðra þingmenn, en hér eru bekkir mjög þunnskipaðir eins og sjá má. En það væri fróðlegt úr því að þingflokksformaður Sjálfstfl. heldur uppi fána síns flokks og er í salnum, ef hann gæti upplýst okkur um afstöðu Sjálfstfl. til hagsmuna leigjands. Er sá flokkur tilbúinn að standa að því í gegnum skattkerfið að leigjendur séu jafnréttháir og þeir sem eiga húsnæði? Eða er það rétt skilið hjá mér, sem ég var að varpa fram í formi ályktunar af því sem ég hef heyrt, að Sjálfstfl. hafi knúið fram þessa stefnubreytingu á málinu?