Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:01:29 (5030)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. síðasta ræðumanns er það mjög mikill misskilningur að Sjálfstfl. hafi sýnt þessu máli sem hér er til umræðu tómlæti. Ég hef þvert á móti átt mjög góð samskipti við Sjálfstfl. og ekki síst formann þingflokksins um framgang þessa máls. Það er því vissulega misskilningur að Sjálfstfl. sýni þessu máli tómlæti þó svo virðist að ekki séu margir sjálfstæðismenn viðstaddir þessa umræðu, eins og reyndar er frá öllum flokkum. Það eru mjög fáir þingmenn í salnum núna.
    Varðandi húsaleigubætur og hvort það sé krafa Sjálfstfl., eins og hér var orðað, að leigjendur séu ekki jafnréttháir eigendum gegnum skattkerfið og hvort það sé krafa Sjálfstfl. að vísa þessu til sveitarfélaga, þá er það einnig rangt hjá hv. síðasta ræðumanni. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta mál með aðild, eins og ég sagði, ASÍ, BSRB, Kennarasambandsins, félmrn. og fjmrn. og komst að þeirri niðurstöðu --- nefndin, það var ekki krafa Sjálfstfl. --- að það væri rétt á þeim tímapunkti að óska eftir því að fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga tæki sæti í nefndinni vegna þess að nefndin taldi skynsamlegt að skoða þá hlið að fella framkvæmdina undir sveitarfélögin vegna þess að á vegum sveitarfélaganna er niðurgreiðsla til leigjenda, t.d. gegnum niðurgreiðslu á leiguhúsnæði. Einnig hafa sveitarfélögin verið með styrki til láglaunafólks sem leigja þarf á almennum markaði. Það þótti því skynsamlegt að skoða þá leið hvort ekki væri rétt að samræma þetta og setja framkvæmdina á eina hendi til sveitarfélaganna í staðinn fyrir að hafa tvöfalt kerfi til leigjenda, annars vegar hjá sveitarfélögunum og hins vegar hjá ríkinu í gegnum skattkerfið. Fulltrúi Sambands sveitarfélaga skrifaði undir þetta álit þar sem fram kemur að skoða eigi að framkvæmdin verði hjá sveitarfélögunum og Samband ísl. sveitarfélaga hefur fallist á að skoða málið áfram með fjmrn. og félmrn. með hliðsjón af þeim tillögum sem fram hafa verið settar.