Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:08:58 (5032)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Um það hefur verið auðvitað pólitískur ágreiningur hvaða markmiðum menn ættu að stefna að í húsnæðismálum. Sjálfstfl. hefur haft þá stefnu að stuðla að sjálfseignarstefnu í húsnæðismálum. Aðrir flokkar, t.d. Alþb., hafa haft þá stefnu að menn séu jafnréttháir hvort sem þeir velji þann kost að eignast húsnæði eða leigja það. Aðgerðir hins opinbera með lagasetningu, t.d. í gegnum skattalöggjöf, eiga ekki að mismuna einum valkostinum umfram annan.
    Þannig er það í dag en hæstv. félmrh. ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. boðaði á síðasta þingi að fljótlega kæmu fram tillögur um húsaleigubætur. Þær hafa ekki komið fram enn og nú er upplýst að málið sé komið í allt annan farveg. Það sé búið að taka hugmyndina um húsaleigubætur út af borðinu og menn séu núna að skoða einhverjar leiðir í gegnum sveitarfélögin. Það geta ekki verið neinar almennar leiðir. Þær hljóta að vera sértækar gagnvart fólki, tekjutengdar og eignatengdar og beinast fyrst og fremst að félagslegu húsnæði. Því með þessu er búið að ýta málinu út úr þeim farvegi að geta verið almennur valkostur í húsnæðismálum yfir í það að vera sértækur.