Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:11:00 (5033)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert hvað hv. þm. reynir að vera með útúrsnúninga og misskilja það sem hefur verið sagt. Hann heldur því t.d. fram að húsaleigubætur séu úti af borðinu. Það er rangt hjá hv. þm. Þetta er spurning um framkvæmdina, hvort framkvæmdin á húsaleigubótunum sé í gegnum skattkerfið eða hjá sveitarfélögunum. Ég hef rökstutt það sjónarmið nefndarinnar að hún telji skynsamlegra að skoða þá leið að framkvæmdin sé hjá sveitarfélögunum. Hv. þm. hélt því einnig fram að nú væri búið að setja þetta í þann farveg að húsaleigubætur kæmu bara vegna félagslegra íbúða. Það er líka rangt hjá hv. þm. Nefndin hefur fyrst og fremst beint sjónum sínum að þeim hópum sem eru á almenna leigumarkaðinum en það eru um 3.300 manns og hafa þeir ekki neina aðstoð í formi niðurgreiddrar leigu eða húsaleigubóta. Þeir sem hafa fengið inni hjá sveitarfélögunum hafa verið með niðurgreidda leigu og sumir lágtekjuhópar hafa fengið styrk til þess að greiða húsaleigu á almennum markaði. Húsaleigubætur eru því ekki úti af borðinu og ég vil að það komi skýrt fram og að hv. þm. leyfist ekki að snúa út úr því sem hér hefur verið sagt vegna þess að í mínum orðum kom aldrei fram að húsaleigubætur væru úti af borðinu. Ekki

er óeðlilegt að nokkurn tíma taki að ná niðurstöðu í þetta mál. Ég minni á að í síðustu ríkisstjórn vorum við í þrjú ár að skoða þetta mál og ekki fyrr en á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar var frv. lagt fram um það efni. Það er því ekki óeðlilegt að nýr flokkur sem kemur að þessu máli þurfi líka tíma til þess að skoða það.