Dýrasjúkdómar

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:36:30 (5042)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Frv. til laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er ætlað að koma í stað fimm gamalla lagabálka sem gilda um tiltekna búfjársjúkdóma, varnir og útrýmingu þeirra. Frv. er endurflutt lítillega breytt frá fyrri gerð en það náði ekki fram að ganga eins og kunnugt er á síðasta þingi. Þá fékk hv. landbn. frv. til meðferðar og leitaði eftir umsögnum og liggja þær fyrir, m.a. frá Búnaðarfélagi Íslands, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Páli A. Pálssyni, fyrrv. yfirdýralækni, Dýralæknafélagi Íslands og yfirdýralækni. Ráðuneytið hefur tekið umsagnir og ábendingar til athugunar og unnið að breytingu á frv. í samráði við formann landbn., hv. þm. Egils Jónsson. Ég vona að sú vinna geti flýtt fyrir því að landbn. treysti sér til afgreiða frv.
    Fyrir utan orðalagsbreytingar sem gerðar hafa verið á einstökum greinum eru helstu breytingar eftirfarandi:
    Við 1. gr. frv. hefur verið bætt einum staflið þar sem lýst er tilgangi laganna, sem sé þeim að lögunum sé ætlað að tryggja að búfjárafurðir framleiddar í landinu séu heilnæmar.
    Við 2. mgr. 5. gr. frv. hefur verið bætt ákvæði um að eigendum dýra skuli skylt að veita alla nauðsynlega aðstoð vegna varúðarráðstafana sem gera þurfi á grundvelli laganna gegn útbreiðslu eða til útrýmingar sjúkdómi sem upp kunni að koma. Ákvæði svipaðs efnis hefur einnig verið bætt við 17. gr. varðandi hreinsun, sótthreinsun og aflífun dýra.
    Í 12. gr. er fjallað um varnarlínur og hefur orðalag greinarinnar verið gert skýrara en áður en efnislega eru ákvæði greinarinnar samhliða ákvæðum 2. og 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 23/1956, sem nú gilda um sauðfjárvarnarsvæði.
    Aukið hefur verið efni 25. gr. frv. Nú er kveðið á um skyldu til að merkja líffæri og sauðfé sem slátrað er þegar það sleppur yfir varnarlínur. Merkt líffæri ber að senda án tafar til rannsóknar. Gert er ráð fyrir því að eigendur fái bætur fyrir sauðfé sem slátrað er, enda séu líffæri úr því send til rannsóknar sem er mikilvægt til að unnt sé að fylgjast með heilsufari viðkomandi sauðfjár og leggja mat á sjúkdómshættu.
    Þá skal bent á að bætt hefur verið við nýrri málsgrein í 27. gr. frv. um heimild til að skipa þriggja

manna dýrasjúkdómanefnd undir forustu yfirdýralæknis en gert er ráð fyrir að hann verði formaður nefndarinnar. Það fyrirkomulag samrýmist því markmiði frv. að samræma eins og unnt er stjórn og framkvæmd sjúkdómavarna á þessu sviði sem mjög er til þess fallið að auka til muna alla hagkvæmni og skilvirkni framkvæmda við sjúkdómavarnir. Leiðir það til sparnaðar fyrir ríkissjóð þegar til lengri tíma er litið. Gert er ráð fyrir að aðrir nefndarmenn í dýrasjúkdómanefnd en yfirdýralæknir séu skipaðir eftir tilnefningu Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands.
    Þau lög sem gert er ráð fyrir að falli brott, verði frv. að lögum, eru lög um heimild til að banna innflutning ósútaðra skinna og húða, lög um berklaveiki í nautpeningi, lög um varnir gegn því að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, lög um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra og lög um sauðfjárbaðanir.
    Um tvö fyrstnefndu lögin er það að segja að ekkert hefur reynt á ákvæði þeirra svo að árum skiptir. Í síðastnefndu lögunum, um sauðfjárbaðanir, er það að segja að þau skylda eigendur og umráðaaðila sauðfjár og geita til að láta fara fram böðun á því annan hvern vetur til að útrýma kláða og öðrum óþrifum. Böðunarskylda þessi er unganþæg og í framkvæmdinni er hún aðeins virk á miklum minni hluta landsins. Er löngu tímabært að afnema slík ákvæði, enda miklu eðlilegra að kveða sérstaklega á um böðun í reglugerð þar sem hennar er þörf af sjúkdómaástæðum og betri samstaða mun fást um slíkar útrýmingaraðgerðir.
    Frv. það sem hér liggur fyrir tekur til allra sjúkdóma í dýrum og er öllum ákvæðum um varnir og útrýmingu sjúkdóma skipað í ein lög. Lögð er áhersla á að með frv., þótt samþykkt verði, sé ekki að neinu leyti slakað á kröfum gildandi laga í þeirri baráttu sem á sér stað og þarf að eiga sér stað til varnar því að sjúkdómar dýra berist til landsins eða að útrýmingu þeirra.
    Í sambandi við fyrrnefnd atriði hafa lög nr. 11/1928, um varnir gegn því að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, reynst traustur bakhjarl. Fullyrða má að öll ákvæði laganna sem máli skipta séu tekin upp í frv. þetta. T.d. er aukið við í upptalningu þeirra vörutegunda sem bannað er að flytja til landsins þar sem hætta er talin á að smithæfni geti fylgt slíkum innflutningi.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til landbn. og 2. umr.