Dýrasjúkdómar

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:46:01 (5044)

     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. Ég tel að þetta frv. sem mun, ef samþykkt verður, koma í stað fimm lagabálka um varnir gegn dýrasjúkdómum vera til mikilla bóta. Þær breytingar sem gerðar eru leiða til bættrar stjórnunar og markvissari ákvarðanatöku í takt við þann tíma sem við lifum í dag og byggjast að miklu leyti á niðurstöðum rannsókna sem framkvæmdar eru á vel útbúnum stofnunum. Ég held að frv. auki öryggi okkar hvað varðar hugsanlegan innflutning á smitefnum sem valdið geta sjúkdómum og vil því stuðla að því að það verði samþykkt. Að sjálfsögðu má deila um einstök atriði sem menn geta haft mismunandi skoðanir á hvernig best fari en það mun væntanlega vera skoðað í hv. nefnd.
    Hvað varðar ummæli hv. 1. þm. Norðurl. v. um alifiska og loðdýr, þá er ég honum ósammála. Ég held að nauðsynlegt sé að flokka bæði eldisfisk og loðdýr með öðru búfé. Þessar dýrategundir eiga hvergi annars staðar heima ef þær eru aldar til þess að hafa af þeim afurðir. Í öllum grundvallatriðum á það sama við um þessar dýrategundir og þær dýrategundir sem við höfum ræktað frá aldaöðli og okkar málkennd eflaust byggist á. Ég er sannfærður um það að með tíð og tíma mun málkennd þjóðarinnar og hv. 1. þm. Norðurl. v. breytast og hann verða mér sammála í þessu efni.