Dýrasjúkdómar

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:03:42 (5053)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um GATT-samningana þá var hún til bóta. Ég fagna því að hæstv. landbrh. man eftir þeirri yfirlýsingu. Ég er ekkert viss um að hæstv. utanrrh. muni eftir þeirri yfirlýsingu. Hann hefur ekki haldið henni á lofti svo ég viti á þeim vettvangi þar sem unnið er að GATT-samningunum. Ég geri ráð fyrir að sendiherra okkar í Genf hafi lagt fram þetta blað. Síðan hefur því verið stungið undir stól. Samkvæmt þeim kunnugleika sem ég hef í Genf þá trúi ég að þessi yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands sé ekki í minnum manna og ekki ofarlega á dagskrá. Ég heiti á hæstv. landbrh. að vera vel á verði um að þessari yfirlýsingu sé haldið til haga og ekki bara haldið til haga heldur farið eftir henni. Ég bið hann að halda samráðherrum sínum harkalega við efnið.