Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:06:00 (5054)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. er lagt fram til að afla nauðsynlegra heimilda til handa búnaðarskólunum til að innheimta skráningargjöld af nemendum og jafnframt gjaldtöku af seldum búvélum til að standa undir kostnaði við vinnu- og verktæknirannsóknir og tilraunir og prófanir bútæknideildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Tilgangur frv. er að styrkja fjárhagslega stöðu viðkomandi stofnana miðað við núverandi fjárframlög ríkissjóðs. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að bætt verði nýrri málsgrein við 32. gr. laga nr. 55/1978, um búnaðarfræðslu. Eftir þeim lögum starfa Bændaskólarnir á Hvanneyri og á Hólum í Hjaltadal. Ekki er óeðlilegt að nemendur skólanna taki einhvern þátt í fjármögnun á beinum kostnaði vegna náms við skólana, en rekstur þeirra er kostnaðarsamur og fjárveitingar þröngar. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir sambærilegri heimild fyrir Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi sem starfar eftir lögum nr. 91/1936. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir að upphæð skráningargjalda sé háð samþykki landbrh.
        Fjárlög gera ráð fyrir að starfsemi bútæknideildar RALA verði að miklu leyti kostuð með þjónustugjöldum eins og það er orðað. Það varð hins vegar að samkomulagi að lagt yrði sérstakt gjald á allar seldar búvélar og er stefnt að því að innheimta um 8 millj. kr. á ári.
    Frv. gerir ráð fyrir að gjaldið verði að hámarki 2%. Sala búvéla hefur numið um 800 millj. kr. á ári undanfarin ár. Miðað við það þarf gjaldið að nema 1%. Hins vegar má reikna með minnkandi búvélakaupum bænda vegna samdráttar í framleiðslu og þar af leiðandi þarf eflaust að reikna með u.þ.b. 1,5% gjaldi. Gjaldtakan hækkar grundvöll sauðfjár- og mjólkurframleiðslu að hámarki um 0,1% þegar áhrif hennar verða að fullu komin fram.
    Bútæknideildin annast m.a. búvélaprófanir. Markmið þeirra er að meta verkhæfni, styrkleika og almennt notagildi tækjanna við íslenskar aðstæður. Fyrir þessar prófanir eru tekin gjöld. Þótt þau séu væg er langt frá því að öll ný tæki séu sett í prófun.
    En það sem skiptir e.t.v. meira máli er sú starfsemi deildarinnar sem lýtur að rannsóknum og athugunum á því hvers konar tækni hentar hér við búskap, undir hvaða kringumstæðum á að hagnýta tiltekinn tækjabúnað, hvernig skipuleggja skuli saman tækjabúnað og byggingar, hvaða áhrif vélarnar hafa á umhverfið, sérstaklega hvað varðar meðferð ræktaðs lands o.s.frv. Þetta er þróunarvinna sem ekki snertir beint hinar eiginlegu búvélaprófanir og ekki er hægt að innheimta fyrir sem slíkar en skiptir enn meira máli við ákvarðanir um skynsamlaga vélafjárfestingu og fyrir hagkvæmni í landbúnaði almennt.
    Þar sem auðveldlega má rökstyðja að bændur hafi haft tilhenigingu til offjárfestinga í búvélum ber að leggja enn ríkari áherslu á þennan þátt í starfsemi deildarinnar og ekki getur talist óskynsamlegt að leggja vægt gjald á sölu búvéla í því skyni. Það ætti þvert á móti að tryggja að um fullnægjandi rannsóknastarfsemi sé að ræða sem komi að haldi. Sem dæmi um slíkar rannsóknir má nefna samanburð á hagkvæmni mismunandi heyverkunaraðferða sem á síðustu árum hefur verið eitt veigamesta verkefni bútæknideildar. Þar hafa rannsóknir á svokallaðri rúllutækni verið hvað fyrirferðarmestar enda er það sú tækni sem örast hefur rutt sér til rúms hér nýlega.
    Lokst má nefna að verulegur þáttur í starfi bútæknideildar eru leiðbeiningar til einstakra bænda um val á tækjum og kennsla og námskeið í notkun þeirra.
    Ég vona, hæstv. forseti, að hv. landbn., sem mun fá þetta frv. til meðferðar, vinni hratt að athugun þess. Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir að þau gjöld sem hér er talað um innheimtist. Ef það nær ekki fram að ganga verður að sjálfsögðu að endurskoða rekstraráætlanir viðkomandi stofnana með hliðsjón af því og draga úr starfsemi þeirra.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.